138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig alveg á því að íslenska efnahagslífið hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum. Ég held að sjálfstæðismenn átti sig alveg á því og þarf ekki að útskýra það fyrir mér sérstaklega. En mér finnst líka að fortíðarríkisstjórnin þurfi að líta til framtíðar með það hvernig við eigum að komast út úr þessum vandræðum aftur.

Ég held ég hafi sagt í ræðu minni að ekki verði komist hjá niðurskurði. Ég vil hafa það, a.m.k. varðar minn hatt, alveg klárt mál að auka þarf tekjur og skera þarf niður. Ég vil hins vegar benda á aðrar leiðir til að auka tekjur en að hækka skattana. Það er ekkert launungarmál og ég veit að það kemur hæstv. fjármálaráðherra ekki mikið á óvart þegar það kemur úr mínum munni að ég vilji frekar sjá aðrar leiðir og þær skoðaðar ofan í kjölinn hvort hægt sé að auka tekjur ríkissjóðs með öðrum hætti og þá ekki síst með því að breikka skattstofnana.

Hvað varðar síðan framkvæmdirnar er skorið verulega niður í framkvæmdafé, sérstaklega í samgöngum enn og aftur. Ég vil að það komi skýrt fram að ég veit ósköp vel að úr mjög vöndu er að ráða þegar á að fara að skera niður og hvernig eigi að fara í hlutina. Ég vil aftur taka það fram sem ég sagði í ræðu minni áðan að kannski er núna líka tækifæri til að velta fyrir sér hvað það er sem ríkið á nákvæmlega að hafa með höndum og hvort hægt sé einhvern veginn að draga meira úr. Margt af því sem kemur fram í tillögum hæstv. fjármálaráðherra hugnast mér ágætlega. En þegar atvinnulífið og ekki síst byggingariðnaðurinn sem reiðir sig á samgönguframkvæmdir er í þeim gríðarlegum vanda sem við horfum upp á núna, við vitum að starfsmenn í mannvirkjagerð eru að fara úr 17 þús. niður í 5 þús. manns, þá er kannski ekki úr vegi að velta fyrir sér hvort hægt sé að ýta eitthvað undir það vegna þess að það gerir ekki annað en að auka neysluna í þjóðfélaginu og koma atvinnulífinu aftur í gang. Það er þetta sem ég vildi segja hæstv. fjármálaráðherra, þ.e. að reyna að líta á þetta í því samhengi.