138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar um það hvar hann telji vera þolmörk skattlagningar á heimilin eins og staðan er í dag við þær aðstæður sem eru í dag. Hver eru þolmörkin?

Ég hins vegar tek undir með honum að við þurfum að koma hjólum atvinnulífsins í gang. En það eru hins vegar ekki allir sammála því í ríkisstjórninni því ríkisstjórnin gerir ekkert nema koma í veg fyrir uppbyggingu í atvinnumálum. Það sem hann segir með Helguvíkurálverið, þá er það bara einu sinni þannig og það er mjög mikilvægt fyrir bæði hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina og þingmenn almennt að átta sig á því að þau áform eru í stórri hættu. Það er bara beint frá forsvarsmönnum fyrirtækisins sem segja manni það. Það er tvennt sem hindrar þær framkvæmdir í dag. Það er ákvörðun umhverfisráðherra og síðan boðaðir stóriðjuskattar, orku- og auðlindagjöld. Það er það sem er að setja verkefnið í uppnám. Og ekki bara það. Telur hv. þingmaður það, af því ég veit hann fylgist vel með fréttum, að stöðugleikasáttmálinn sé ekki í öndunarvél, telur hann að hann sé bara í góðu lagi? Nei, ég held ekki.

Eins langar mig að benda hv. þingmanni á það að þessi boðuðu orku- og auðlindagjöld munu líka koma niður á heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Þau munu klárlega koma þar niður, hækkun á þeim gjöldum. Ekki bara það. Það liggur fyrir að í fjárlagafrumvarpinu er ekki hækkun niðurgreiðslu á rafmagni, þrátt fyrir 20% hækkun á milli ára. Það er dregið úr. Það er lækkun, sem kemur enn þá harðar niður á þeim sem búa í hinum dreifbýlu stöðum og kynda með rafmagni. Það er orðið dýrara að kynda með rafmagni en með olíu. Það kannski segir allt sem segja þarf.

Ég ítreka spurningarnar um stöðugleikasáttmálann og eins hver séu þolmörk heimilanna í landinu í skattlagningu miðað við þær aðstæður sem eru í dag.