138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svarið er já, ég er alveg sannfærður um að þessar skipulagsbreytingar geta ekki bara skilað hagræðingu heldur eru þær algerlega nauðsynlegar til að við náum því að standa vörð um þessa þjónustu og veita hana með sem allra minnstum tilkostnaði. Það er ekki hægt að fara hina leiðina og skera jafnt niður litlar einingar þar sem af engu er að taka. Þá er betra að skipuleggja þetta í stærri heildum og veita þjónustuna á svæðisbundnum skrifstofum og útstöðvum og dreifa verkefnunum, nýta möguleika fjarvinnslu og tækni sem er auðvelt að gera, t.d. í skattinum. Það blasir einfaldlega við að það er langeinfaldast að gera landið að einu skattumdæmi og vinna svo úr málum á mismunandi stöðum. Tekjuskatturinn getur allur verið á einum stað, t.d. á Akureyri, virðisaukaskatturinn á öðrum stað, í Hafnarfirði, öll landbúnaðarframtöl á Suðurlandi o.s.frv. Menn eiga ekki að vera of kjarklitlir í að takast á við breytingar því ef menn hafa ekki burði í sér til að gera það núna, hvenær þá?

Veruleikinn er auðvitað sá að við getum talað okkur í burtu frá þessu öllu saman, að það sé ómögulegt að hækka þennan skatt eða hinn, það megi ekki hrófla við þessari starfsemi. Hver verður útkoman af því? Við gerum ekki neitt. Hver verður þá útkoman aftur af því? Hún verður 150–200 milljarða halli á ríkissjóði í einhver ár og við vitum öll hvernig það endar. Það þýðir ekki, þannig að við verðum að fara í þetta af einurð, það er ekkert annað í boði.

Varðandi vinnubrögðin sem hv. þingmaður spurði um þá var það þannig að allar meginforsendur þessa fjárlagafrumvarps voru gerðar opinberar og kynntar og ræddar á Alþingi í júní. Ég spyr hv. þingmann: Hvenær áður hefur það gerst? Þetta frumvarp byggir í öllum atriðum á þeirri áætlun og þeirri skýrslu sem hér var lögð opið fyrir fyrir nokkrum árum síðan. Að þeirri vinnu komu mjög margir, fjölmargir þingmenn, að einhverju leyti meira að segja stjórnarandstaðan í gegnum þátttöku sína í viðræðum inni í Karphúsi með aðilum vinnumarkaðarins þegar verið var að leggja grunn að stöðugleikasáttmálanum þannig að svona opið hefur fjárlagavinnuferlið aldrei áður verið.

Svo tek ég undir það með hv. þingmanni að við eigum að tala kjark í þjóðina.