138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra enn og aftur fyrir að vera í salnum og taka þátt í þessari umræðu. En nú er það svo að óvissan sem ég ræddi í fyrra svari mínu við andsvari ráðherrans er til staðar vegna þess að upplýsingar varðandi stofnanir úti á landi hafa einfaldlega ekki verið útfærðar og þær liggja ekki fyrir. Efasemdir um að þetta komi til með að skila einhverri hagræðingu eru á rökum reistar. Það kom fram í umræðunni þegar hæstv. dómsmálaráðherra fjallaði um sína hlið mála í dag þannig að þetta liggur ljóst fyrir. Efasemdir stjórnmálamanna og sveitarstjórnarmanna um landið allt eru á rökum reistar. Það eru þessi vinnubrögð sem þarf að fara yfir og þau eru ekki í lagi.

Vissulega er verkefnið erfitt og ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra um að það þarf að vanda vel til verka. Og ég er sammála honum um að kominn er tími til þess að stjórnmálamenn tali kjark í þjóðina. Þess vegna hvet ég hæstv. fjármálaráðherra til að gera það og ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til þess fyrir okkur öll þar sem hann stjórnar nú í orði og á borði sýnist mér þessari ríkisstjórn, kemur heim frá Istanbúl og allt fellur í ljúfa löð og það er ágætt, til að tala kjark í þjóðina við hvert einasta tækifæri. Það er hlutverk okkar allra sem hér sitjum vegna þess að verkefnið er stórt. Ég öfunda hæstv. fjármálaráðherra ekki af stöðu hans í dag. Það er erfitt að vera ráðherra í ríkisstjórn í dag. Það þarf einhver að taka þetta að sér og það er ágætt að hæstv. fjármálaráðherra er uppfullur af vissu um að nú sé kominn tími til að tala kjark í þjóðina.