138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra heldur því þá fram að aðilar vinnumarkaðarins fari ekki með rétt mál þegar þeir gagnrýna ríkisstjórnina varðandi efndir stöðugleikasáttmálans. Ég nefndi í ræðu minni að skattar á heimilin í landinu væru meiri í þessu fjárlagafrumvarpi en stöðugleikasáttmálinn gerði ráð fyrir. Er það ekki rétt? Þá er eðlilegt að spyrja: Stendur ríkisstjórnin þar með við þann hluta stöðugleikasáttmálans þar sem aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar launþega, þurfa að standa frammi fyrir sínum umbjóðendum og verja sínar gjörðir? Þegar ríkisvaldið stendur ekki við þann hluta stöðugleikasáttmálans er ósköp eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins ræði um það.

Þegar hætt er við að framlengja viljayfirlýsingu fyrir norðan með heimamönnum og Alcoa varðandi frekari rannsóknir á því svæði er ekki um eðlilega stjórnsýslu að ræða. Þar er bara um hreinræktaða pólitík að ræða. Á Reykjanesi var fyrirhuguð mikil uppbygging starfa en úrskurður umhverfisráðherra hefur leitt það af sér að mörg hundruð störf verða ekki að veruleika á þeim tíma sem þau hefðu getað orðið. Það eru mjög alvarleg tíðindi fyrir íbúa á Reykjanesi. (PHB: Þúsund.) Hér nefna menn töluna 1000 störf.

Hæstv. ráðherra skal ekki tala um að um eðlilega stjórnsýslu sé að ræða þegar komið er að málum með þessum hætti þegar 13.000 Íslendingar eru án atvinnu. Þarna er einfaldlega um að ræða ríkisstjórn sem því miður hefur brugðist (Forseti hringir.) viðsemjendum sínum og íslenskri þjóð.