138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið og fæ að snúa mér fyrst að því sem hv. síðasti ræðumaður tók hér upp, væntanlega í sinni jómfrúrræðu. Það er alveg rétt að á þennan lið var sett eins og svo marga aðra viðbótaraðhaldskrafa þegar ríkisútgjöld voru dregin saman um á tíunda milljarð kr. með margvíslegum ráðstöfunum sl. vor. Þá var það mat aðila að hægt væri að leggja nokkra aðlögunarkröfu, eins og það er kallað, á þennan þátt. Þarna hafði verið gert ráð fyrir allríflegum fjárveitingum og eftir sem áðsur er úr heilmiklu að spila auk þess sem einhverjar tekjur koma þarna til sögu.

Reyndar er í sérstakri skoðun hvaða framkvæmdum verði hægt að halda áfram eða hrinda úr vör á þessu svæði, jafnvel að einhverju leyti tekjugefandi framkvæmdum þannig að tekjur stofnist á móti í framhaldi af standsetningu húsnæðis eða öðrum slíkum þáttum. Ég get fullvissað hv. þingmann um að eitt af því sem þar er sérstaklega haft í huga er bágt atvinnuástand á Suðurnesjum. Ýmis verkefni eru í skoðun og ýmsir þættir sem horfa sérstaklega til þeirra svæða þar sem atvinnuástandið er erfiðast en það eru höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, kannski Eyjafjarðarsvæðið og nokkur önnur. Sem betur fer er almennt mun betra atvinnuástand á landsbyggðinni þar fyrir utan og reyndar mjög gott á ákveðnum svæðum þar sem má segja að atvinnuleysi sé í lágmarki eða nánast ekkert umfram það sem reikna má með, t.d. á Vestfjörðum og norðvestanverðu landinu.

Þetta verkefni færðist milli ráðuneyta nú um síðustu mánaðamót og kom yfir til fjármálaráðuneytisins, meðferð eignamála á þessu svæði. Í tengslum við það verður væntanlega gert milliuppgjör á stöðu verkefnisins og hvernig það stendur nú fjárhagslega. Þá verður hægt að svara betur spurningum á borð við þær sem hv. þingmaður bar upp um það hvernig gangi að innheimta fyrir sölu eigna eða hvernig efndir hafi verið á ýmsum samningum sem þarna hafa verið gerðir. Það hefur ekki verið í höndum fjármálaráðuneytisins fyrr en nú og ég get fullvissað hv. þingmann um að farið verður vel yfir það allt núna í tengslum við þessa yfirfærslu.

Varðandi það sem hér hefur borið á góma að öðru leyti, og þá sérstaklega síðustu ræður sem ég hef ekki farið í andsvör við, vil ég taka fram svo að enginn misskilningur sé á ferð að það var ekki að ósk eða kröfu þingflokks Vinstri grænna að þingið skipaði málum þannig að við vorum flutt í annað húsnæði. Okkur, sem sum höfum verið lengi í Vonarstræti 12, hefur liðið þar vel og hefðum vel getað hugsað okkur að vera þar áfram þó að við höfum vissulega vaxið húsinu nokkuð yfir höfuð. Það var orðið fulllítið fyrir þingflokk Vinstri grænna og starfslið en rúmaði hér á árum áður tvo þingflokka og jafnvel rúmlega það. Við kunnum þó líka ágætlega við okkur í VG-höllinni svokölluðu.

Varðandi það sem hv. þm. Ólöf Nordal sagði í almennri yfirferð um málin þá hefur hv. þingmaður áhyggjur af ýmsu og það höfum við auðvitað öll. Ég held samt að við ættum líka að gefa gaum ýmsum jákvæðum merkjum sem þrátt fyrir allt eru að berast og tínast til þessa dagana, svo sem ýmsar betri fréttir úr atvinnulífinu en menn höfðu kannski búist við. Ég nefni þar fréttir um að ýmis útflutnings- og framleiðslustarfsemi gerir sér greinilega mat úr hagstæðu gengi krónunnar og aðstæðum af því tagi. Ég hef fengið mörg dæmi inn á mitt borð um framleiðslufyrirtæki sem hafa aukið umtalsvert markaðshlutdeild sína og eru jafnvel farin í auknum mæli að horfa til útflutnings eða beinlínis flytja út vörur. Það er enginn vafi á því að útflutningsgreinar eins og sjávarútvegur og ferðaþjónusta hafa notið góðs af genginu m.a. og hlutfallslega lækkandi tilkostnaði í innlendri mynt á móti útflutningstekjum. Svipað mætti væntanlega segja um stóriðjufyrirtækin hverra launakostnaður hefur lækkað um tugi milljóna dollara frá því sem hann var þegar gengið var mun hærra skráð í upphafi árs 2008.

Átak í markaðssetningu og kynningu landsins er að fara af stað og er ætlað að auka umsvif hér í ferðaþjónustu yfir vetrartímann. Með góðu samstarfi stjórnvalda og ferðaþjónustuaðila verða lagðar einar 170 millj. kr. í viðbótarmarkaðsátak fyrir landið á næstu vikum og mánuðum til að reyna að halda hér uppi meiri umsvifum í ferðaþjónustu yfir vetrartímann en ella hefði mátt búast við. Ferðaþjónustutíminn er sem betur fer alltaf að lengjast, talsverð umsvif enn í þjónustu við erlenda ferðamenn þó að komið sé fram í októbermánuð, vertíðin byrjar fyrr að vori og talsverð umferð er yfir veturinn. Þar er eftir miklu að slægjast því að þar verða til störf og gjaldeyristekjur eiginlega án nokkurrar viðbótarfjárfestingar því að samgöngukerfið, innviðirnir, hótelin og afþreyingin er öll til staðar.

Þegar maður skoðar atvinnuleysistölur og -þróun eru 7,2%, eins og atvinnuleysið mælist í þessum mánuði, vissulega mjög há tala og okkur ótöm. Engu að síður er það veruleikinn að fjölmargar og velflestar Evrópuþjóðir mundu fegnar skipta við okkur á þessari tölu og því sem þar er búið við. Ég leyfi mér að láta í ljós þá bjartsýni mína að ef vel gengur í gegnum veturinn eigum við ekki eftir að sjá þá miklu aukningu atvinnuleysis sem spáð hefur verið. Mér finnst alveg vera innstæða fyrir því að gera sér vonir um að atvinnuleysið aukist um minna en 3–3,5% frá þeim tölum sem við búum við í dag.

Í dag hefur hér borið á góma að núna stefni í að ríkið kunni að sleppa með talsvert miklu minni fjárbindingu í endurreisn fjármálakerfisins en áður var gert ráð fyrir með tilheyrandi minni vaxtakostnaði. Verið er að endurmeta hver þörf ríkisins og Seðlabankans verður fyrir erlend gjaldeyrislán. Nú er ljóst að þau verða í öllu falli tekin mun síðar og væntanlega í minna mæli en áður var ráð fyrir gert og að sjálfsögðu hefur ekki fallið til neinn kostnaður eða vaxtamunur af lánum sem ekki hafa enn verið tekin. Við erum þó komin þangað sem við erum og það hefur bara gengið þokkalega. Vissulega hefur ekki orðið sú þróun hvað varðar styrkingu á gengi krónunnar eða lækkun verðbólgu sem menn vonuðust eftir til að skapa aftur forsendur fyrir lækkun vaxta. Nú vonast menn eftir því að hún geti farið í hönd og ég er í raun og veru sannfærður um að það er innstæða fyrir slíkri þróun um leið og Icesave-málið er leyst, endurskoðun samstarfsáætlunar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur farið fram og við getum dregið á næsta skammt af gjaldeyrislánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og skammtana frá hinum Norðurlöndunum, að því marki sem við ákveðum að taka þá. Þá eru komnar mun sterkari forsendur á bak við peningamálastefnu og efnahagsstjórn til þess að hér geti farið í gang hröð lækkun vaxta og verðbólgu.

Þá kemur að öðru sem hv. þm. Ólöf Nordal nefndi einnig og það er nauðsyn þess að hjólin snúist og hér séu umsvif í samfélaginu en það tengist aftur tekjustofnunum sem hér voru ræddir. Að sjálfsögðu hafa þeir gefið mikið eftir og það gefur augaleið af hverju það er þegar við skoðum þær breytingar sem hafa orðið bæði á launatekjum og á atvinnustiginu sem vegur auðvitað þungt á báðar hliðar. Minni launatekjur koma til skattlagningar og meiri útgjöld á hina hliðina vegna atvinnuleysisbóta. Neyslan dregst þá að sjálfsögðu saman þó að einkaneysla stefni í að dragast mun minna saman á þessu ári en spáð var. Það var nánast spáð hruni á henni um tíma, að hún mundi lækka um allt að fjórðungi en nú er talan rúmlega 17%. Á móti kemur hins vegar að innstæður hafa aukist sem og sparnaður. Innstæður bæði almennings og fyrirtækja hafa aukist umtalsvert í bankakerfinu. Það fé er til staðar, þau verðmæti eru þarna. Ef vextir lækka má að breyttu breytanda ætla að það verki frekar hvetjandi fyrir það fé að leita út, annaðhvort í formi lánveitinga til aðila sem fara þá að fjárfesta og hreyfa sig eða einfaldlega til aukinnar eftirspurnar í gegnum neyslu eða aðra ráðstöfun í samfélaginu.

Ég tel því að ýmis teikn séu á lofti um að ýmsir hlutir geti þróast hér á næstu mánuðum, svo ég tali nú ekki um til lengri tíma litið, á jákvæðan veg. Við vitum öll að veturinn verður á ýmsan hátt erfiður, það er nokkurn veginn óumflýjanlegt að horfast í augu við að atvinnuleysi mun aukast á nýjan leik. Það gerir það jafnan, þó ekki væri nema fyrir árstíðasveifluna í venjulegu árferði, en væntanlega verður aukningin eitthvað meiri vegna uppsagna og samdráttar bæði í rekstri opinberra aðila og hjá einkaaðilum. Engu að síður tel ég, miðað við það sem hér hefur gerst og það gríðarlega áfall og tjón sem varð á Íslandi með bankahruninu í þessum mánuði síðasta árs, að ekki sé hægt að segja annað en að í það heila tekið hafi gengið vel að fleyta samfélaginu og þjóðarbúskapnum í gegnum þetta. Menn merkja hvergi það mikla hrun eða voveiflegu atburði sem á köflum voru uppi í heimsendaspám síðasta vetur. Ég minni á að þá gengu menn jafnvel fram fyrir skjöldu og spáðu 20% atvinnuleysi og enn meira hruni, bæði í atvinnulífi og afkomu heimila, en þó hefur orðið. Allt er þetta auðvitað brothætt og erfiðleikarnir eru miklir, sérstaklega hjá fjölskyldum þar sem afkomubrestur hefur orðið, vinnan hefur tapast eða af öðrum ástæðum eru miklir efnahagslegir erfiðleikar og þrengingar.

Bankakerfið, komið á varanlegan grunn á nýjan leik og fullfjármagnað, einhendir sér nú í að vinna úr skuldavanda bæði heimila og fyrirtækja og almennar ráðstafanir í þeim efnum munu innan tíðar líta dagsins ljós á þingi. Sú úrvinnsla verður gríðarlega mikilvæg en um leið vandasöm og örugglega að einhverju leyti pólitískt umdeild. Það er engin einföld óumdeild leið til í slíkum efnum en þetta er engu að síður verkefni sem við eigum afar mikið undir að vinnist vel á næstu árum, að allur lífvænlegur atvinnurekstur og að sjálfsögðu heimilin séu studd með ráðum og dáð í gegnum erfiðleikana.

Ýmis verkefni og tækifæri eru á döfinni í atvinnulífinu og ég veit að hugur mjög margra er bundinn við einstök stór mál sem menn telja að séu lausnin á þessum vanda. Ég skal ekki deila um að þau eru hluti af þeirri mynd. Það sem gerir mig þó miklu bjartsýnni eru fréttir sem koma næstum daglega af ýmsum áformum lítilla og meðalstórra aðila, sem og mikill hugur þeirra sem sinna rannsóknum, nýsköpun og þróun í atvinnulífinu á Íslandi. Innan skamms verða kynntar ráðstafanir til þess að styðja betur við það umhverfi og skapa því enn hagstæðari skilyrði. Margir bíða í ofvæni eftir því að sá grunnur verði lagður vegna þess að það er ljóst að ýmis nýsköpun eða þróun í starfandi nýsköpunarfyrirtækjum getur haft heilmikið að segja. Takist okkur að skapa þar hagstæð skilyrði og störf fyrir vel menntað fólk sem nú er á lausu er ég sannfærður um að góðir hlutir geta gerst í þeim efnum sem leggja grunn að betri framtíð, aukinni fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og framsækinni og nútímalegri þróun sem að mínu mati er það sem við þurfum að sjá. Það sem við viljum er sjálfbært, grænt, nútímalegt og framsækið atvinnulíf.

Að öðru leyti, frú forseti, þakka ég fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið. Ég veit að hv. fjárlaganefnd mun taka við þessu máli og verða þeim vanda vaxin að fylgja því í gegnum þingið.