138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[16:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra vék sér fimlega undan spurningu minni og því ætla ég að endurtaka hana. Hann talar um að það sé mjög nauðsynlegt að rjúfa kyrrstöðu og koma þessum ákveðnu málum í gegn þannig að jákvæðar fréttir berist frá Íslandi. Þá spyr ég hæstv. ráðherra aftur: Er einhverrar þeirrar niðurstöðu að vænta sem nær í gegn um hans eigin þingflokk? Ég held að sú kyrrstaða sem hann boðar að þurfi að rjúfa, að það sé fyrst og fremst sannfæringarkraftur hans á þingflokksfundum Vinstri grænna sem hefur vantað eða skort þar upp á.

Síðan langar mig að víkja aftur að atvinnumálunum. Mig langar að spyrja, þó það sé kannski þessu ótengt en af því hæstv. ráðherra ræddi um mikilvægi þess að skapa störf og við þyrftum að horfa til þess að þau væru væn, græn og sjálfbær og allt þetta: Er hæstv. ráðherra sammála ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra um að vísa matinu varðandi Suðvesturlínu aftur til Skipulagsstofnunar? Telur hæstv. fjármálaráðherra það ekki ganga gegn stöðugleikasáttmálanum sem undirritaður var — af alla vega forsætisráðherra, ég veit ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi undirritað hann líka — þar sem stóð beinlínis að það ætti að ryðja úr vegi öllum hindrunum varðandi það verkefni? Er hæstv. fjármálaráðherra sammála hæstv. umhverfisráðherra í þessu efni?