138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi söguskoðun mína ætla ég að taka undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni. Það er alveg hárrétt hjá honum að ríkissjóður greiddi niður sínar skuldir á ákveðnu tímabili og átti inneign sem kom sér ágætlega inni í Seðlabankanum en á sama tíma, og við því var varað á þeim tíma, jókst skuldsetning heimila og fyrirtækja gríðarlega. Breytingarnar á bönkunum og hækkun fasteignaverðs urðu til þess að veðandlög urðu skyndilega til og menn fóru að auka skuldsetningar og lántökur. Ég held að þjóðin hafi skuldsett sig fyrir 2.000–3.000 milljarða króna sem menn höfðu miklar áhyggjur af fyrir árið 2007 og við hefðum því þurft að skoða það miklu betur. Einmitt í því samhengi benti ég á að menn hefðu þurft að sporna við þenslunni einmitt með því að lækka ekki skatta, og það var rætt, heldur reyna að halda uppi sköttum og safna enn frekari sjóði á meðan þenslan var hvað mest. Við fluttum inn 20 þús. manns á þessum tíma sem auðvitað skapaði gríðarleg verðmæti inni í samfélaginu en samtímis var neysla langt umfram það sem verðmætasköpunin var á sama tíma. Einn af veikleikunum í kerfinu á þeim tíma var að menn skoðuðu eingöngu ríkissjóð en gleymdu að skoða heildina. Einmitt í þeirri skoðun sem við höfum farið í gegnum á sl. ári er skoðað hvaða breytingar hafa orðið á heildarskuldastöðunni þar sem sveitarfélögin og einstaklingarnir og fyrirtækin koma til viðbótar.

Varðandi innviði samfélagsins og velferðarútgjöldin þá er ágætt að hv. þingmaður hafi vakið athygli á því. Útgjöld til samgöngumála jukust nefnilega gríðarlega með samstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þau tvö ár standa algjörlega upp úr, 2007 og 2008. Það var alveg sama með velferðarmálin, gríðarleg breyting varð á þeim árin 2007 og 2008. Því miður höfum við ekki getað haldið í þann ávinning. Við höfum greinilega gengið örlítið of langt og orðið að taka skref til baka. Þarna urðu mestu breytingarnar og því ber auðvitað að fagna.