138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður bendir á að við séum sammála um að spara en ekki sammála um hvernig. Ég hefði við betra tækifæri viljað heyra í hverju sá ágreiningur felst vegna þess að þar spilar einhver plata — (Gripið fram í.) já, þá erum við sammála, vegna þess að það kemur nefnilega fram í þessari tillögu að það eigi ekki að beita flötum niðurskurði. Um það er einmitt skýrslan um efnahagsmálin sem lögð var fram í vor og með leiðarljósunum sem þar eru. Þótt menn nefni prósentur hefur komið mjög skýrt fram í umræðum í fjárlaganefnd að það er einmitt ekki verið að skera flatt niður heldur er brugðist við með ólíkum hætti. Viðkomandi ráðuneyti og viðkomandi stofnanir leggja mat á það hvar sé hægt að ná hagræðingu. Það hefur líka komið fram í því leiðarljósi sem ríkisstjórnin lagði fram með hvaða hætti eigi að taka á þessu.

Varðandi tekjuhliðina þá greinir okkur réttilega á um það að ég hef ekki trú á að breikkun skattstofna og með því að setja hjól atvinnulífsins í gang — eins auðveldlega og það hljómar, auðvitað eigum við að reyna að koma því í gang — að það eitt dugi varðandi tekjuhliðina.

Varðandi lífeyrissjóðina er það auðvitað mjög góð viðbót ef sú leið er fær án þess að það skapi okkur vandræði síðar. Það getur verið réttlætanlegt í eitt eða tvö ár, við skulum skoða það. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að fara yfir það og meta kosti þess og galla. Fyrsta mat aðila margra, t.d. vinnumarkaðarins, var neikvætt. Við skulum skoða hvaða rök þeir hafa fyrir því. Ég hef ekki tíma til þess að fara yfir þau hér en ég held að okkur greini ekki á um það ef við getum fundið betri tekjustofna. Það er bara hið besta mál. Ein af tilraununum hvað það varðar voru auðlindaskattarnir sem á eftir að útfæra í smáatriðum.

Mér finnst skipta miklu máli í umræðunni, vegna þess að það er alveg rétt sem hér hefur komið fram, að íslenska ríkið á ekki að bregða fæti fyrir þá sem vilja fjárfesta hér eða atvinnulífið sem vill byggja sig upp. Sömuleiðis vil ég þó segja að þrátt fyrir ástandið eigum við ekki að leggjast á hnén og aflétta öllu venjulegu regluverki eða slaka á varðandi skatta eða gjaldtökur á þessum tíma. Ég er ekki að bera upp á hv. þingmann að hann hafi haldið þessu fram. Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess að menn tala stundum eins og það eigi að gera allt til að (TÞH: Enginn að tala um það.) (Forseti hringir.) Við eigum auðvitað að halda okkar regluverki og endurskoða það ef nauðsynlegt er og hafa samræmdar reglur varðandi þetta.