138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[18:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögur sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sett fram og því ber að fagna að þingmenn skuli hafa frumkvæði að því að koma með slíkar tillögur. Ég vil þó í upphafi máls míns lýsa yfir undrun minni á þeim viðbrögðum sem þessar tillögur og aðrar hafa fengið hjá stjórnarflokkunum og talsmönnum þeirra á Alþingi.

Ég undrast mjög að þegar settar eru fram tillögur og hugmyndir eða þingmenn reyna að beita sér fyrir hag lands og þjóðar þá sé ráðist að þeim með hæðni og útúrsnúningum og látið eins og þetta sé einskis vert sem þeir þingmenn leggja á sig. Það er fyrst og fremst til marks um það hvaða augum ríkisstjórnin lítur á Alþingi, á starf þingmanna. Hún er í raun að gjaldfella sjálf þau orð sem stjórnarflokkarnir hafa viðhaft um samráð og nú skuli taka upp ný vinnubrögð og slíkt. Ég hygg að sjaldan eða aldrei hafi verið jafngróflega gengið fram af hálfu stjórnvalda gagnvart tillögum og viðleitni þingmann að leggjast á árar til að koma samfélaginu út úr því umhverfi sem það er í í dag.

Sú ríkisstjórn sem situr er ríkisstjórn margra orða en fárra verka. Líklega er það það sem skýrir þau viðbrögð að stjórnarflokkarnir gera sér grein fyrir því að þeim eru mislagðar hendur í að koma þjóðinni út úr því umhverfi sem hún er í núna. Það vill gjarnan vera þannig að þegar aðrir koma með góðar hugmyndir og benda á leiðir — þetta er eins og með krakkana á leikskólunum, þeir fara í fýlu af því að þeir eiga ekki sjálfir hugmyndina. Þetta minnir mann helst á það og er ábyrgðarhluti að bregðast svona við.

Ríkisstjórnin er líklega komin út í horn í þeirri vegferð sinni að reyna að koma samfélaginu út úr vandanum. Ríkisstjórnin hefur bundið sig algerlega við prógramm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og svo virðist sem ekki megi hnika því. Ríkisstjórnin hefur viðurkennt að erlendar þjóðir, sérstaklega þjóðir Evrópusambandsins, séu að kúga okkur til að greiða skuldir sem ekki er búið að sanna að íslenska þjóðin eigi að greiða. Þetta eru sömu þjóðir og ríkisstjórnin vill skríða upp í bólið hjá í faðmi Evrópusambandsins. Því er ekki að undra að við séum í þeirri stöðu að allt skuli látið yfir sig ganga til þess eins að komast í það hlýja ból að því er þeir telja.

Þær tillögur sem lagðar eru fram eru margar hverjar mjög forvitnilegar. Ég hef áhuga á að skoðuð verði sérstaklega sú kerfisbreyting sem talað er um varðandi skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Í því árferði sem er í dag finnst mér mjög freistandi að skoða það vandlega þó ekki væri nema sem tímabundna aðgerð hugsanlega.

Síðan er í tillögunum rætt um hagræðingarkröfuna og ég hef velt því fyrir mér, og auðvitað geta menn hártogað það, hvort þessar prósentur eru það eina rétta. Ég tek undir það sem kemur fram í tillögum sjálfstæðismanna að horfa ber á hvert og eitt tilvik fyrir sig. Það er óeðlilegt að setja fram flata sparnaðarkröfu eða hagræðingarkröfu eins og málin horfa.

Ég get tekið undir það sem snýr að umhverfi atvinnurekstrar. Það er gríðarlega mikilvægt að núverandi ríkisstjórn hætti að senda þau skilaboð sem hún sendir í sífellu til atvinnulífsins, og til heimilanna um leið því að heimilin væru betur stödd eða ættu bjartari framtíð ef jafnbjart væri yfir atvinnulífinu, að atvinnulífið eigi að borga hærri skatta og nánast segja það í ræðustól eins og mátti skilja suma stjórnarþingmenn. Menn tala eins og atvinnulífið greiði enga skatta. Það er mjög furðulegt að hlusta á slíkan málflutning. Menn segja þetta ekki berum orðum en hér standa menn og segja við stjórnarandstöðuna: Finnst ykkur eðlilegt að atvinnulífið taki ekki þátt í því að reisa samfélagið? Atvinnulífið greiðir skatta alveg eins og einstaklingar og aðrir (Gripið fram í: Og borgar laun.) og borgar laun, ég þakka fyrir þessa ábendingu, launin sem heimilin þurfa til að greiða af skuldum sínum og öðru. Nei, hugmyndirnar eru að skattleggja fyrirtæki og almenning meira og um leið að skera niður. Ég held að þetta geti ekki gengið upp.

Það sem mér finnst hins vegar vanta inn í þessar ágætu tillögur sjálfstæðismanna er að skýrar komi fram tafarlaus viðbrögð við ástandi fjármála heimilanna. Það er óásættanlegt að bíða lengur, það er óásættanlegt að skipa starfshóp til að fara yfir stöðu heimilanna. Það þarf að bregðast við núna strax. Þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur sett fram, sem ég hef hingað til sagt að væru jákvæðar — það er jákvætt skref t.d. hjá félagsmálaráðherra að fara þá leið sem hann hefur farið, en ég er farinn að efast um að það sé mjög jákvætt skref því að dæmin sem við þingmenn erum nú að fá og heyra sögur af eru ekki mjög jákvæð. Það verður að leiðrétta höfuðstól skulda heimilanna strax og það verður að gera í almennri aðgerð. Ég held því miður, ágætu þingmenn, að sá tími sé að renna frá okkur að það sé hægt. Ég vona að það sé rangt hjá mér en ég er búinn að reyna að átta mig á því hvað gerist þegar bankarnir og þessar skuldir eru komnar í eigu útlendinga, erlendra kröfuhafa, hvaða tækifæri íslenska ríkið eða ríkisstjórnin hefur til að beita sér í þessu. Tillögurnar í dag gera eingöngu ráð fyrir heimild til að afskrifa skuldir, það er algerlega óásættanlegt.

Það er fullt af tækifærum fyrir Íslendinga og íslenska þjóð til að komast út úr þeim vanda sem hún er í í dag. Þessar ágætu tillögur eru skref í þá átt. Við framsóknarmenn og þingflokkur Framsóknarflokksins munum leggja fram endurnýjaðar efnahagstillögur, sem lagðar voru fram í febrúar sl., á næstu dögum eða vikum þar sem við tökum mið af þeim aðstæðum sem hafa breyst síðan. En í grunninn erum við enn þá að tala um sömu hlutina. Atvinnulífið verður að ganga og það verður hjálpa heimilunum til að lifa af þessa stöðu. Ég fagna því skrefi sem er í þessari þingsályktunartillögu þar sem lögð er áhersla einmitt á þetta þó svo okkur muni eflaust aðeins greina á um aðferðir og annað.

Það er óásættanlegt, eins og ég nefndi í upphafi máls míns, að tillögur sem koma frá stjórnarandstöðunni, tilraunir til að afla Íslandi fylgis erlendis, skuli slegnar út af borðinu sem bjánaskapur með hæðni og öðru slíku. Við eigum að hlusta á allar góðar hugmyndir. Við höfum hlustað jákvætt í stjórnarandstöðunni á þær hugmyndir sem hafa komið fram eins og ég sagði áðan, t.d. frá félagsmálaráðherra. Ég vænti þess að slíkt hið sama sé gert hjá ríkisstjórninni með það sem við höfum fram að færa því eingöngu þannig, með því að hlusta hvort á annað, stjórn og stjórnarandstaða, munum við finna veginn út úr þessu.

Ég hvet til þess og hvet ríkisstjórnina til að pakka saman þeim tillögum sem hún hefur lagt fram, pakka saman þessu andstyggðarfjárlagafrumvarpi, eins og ég hef kallað það, sem er algerlega marklaust plagg. Það hefur komið í ljós dag eftir dag að þetta er algerlega marklaust plagg. Forsendur eru ekki til staðar sem eru lagðar til grundvallar frumvarpinu. Meira að segja ríkisstjórnin er farin að viðurkenna að þær grundvallarforsendur varðandi kerfisbreytingu t.d. hjá sveitarfélögum, svæðaskiptingu og annað, séu ekki hugsaðar eins og í fjárlagafrumvarpinu. Orkuskatturinn á sér enga stoð í raunveruleikanum virðist vera, nema hvað ríkisstjórnin vill skattleggja fyrirtækin. Því þarf að taka höndum saman og finna taktinn í þessu. Sú tillaga sem er til umræðu er skref í þá átt. Við munum að sjálfsögðu bæta í sarpinn og ég vona að þessi tillaga eins og aðrar tillögur fái jákvæða meðhöndlun hjá þeirri nefnd sem hún fer til því að við getum ekki leyft okkur að hunsa af gömlum pólitískum kreddum eins og ríkisstjórnin leikur sinn leik dag eftir dag þær tillögur sem fram koma. Þess er krafist af okkur, þess er krafist af Alþingi að við komum okkur saman um að reyna að finna leiðir út úr ástandinu. Þá þýðir ekki að skella skollaeyrum við því eins og hæstv. ríkisstjórn gerir.