138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[16:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að munnhöggvast við hæstv. ráðherra um þessar niðurfellingar, það verður væntanlega fjallað um þær í félags- og tryggingamálanefnd. Mig langar hins vegar að nota þennan tíma til þess að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra: Er hann hræddur um að þessar aðgerðir komi kannski of seint? Eins langar mig að spyrja hann hvort hann hafi áhyggjur af því að þetta taki of langan tíma í kerfinu. Hann kom reyndar inn á það í ræðu sinni áðan að í bankakerfinu væru um 3.300 starfsmenn sem hefðu mikla þekkingu og ættu að geta nýst vel. Er hann fullviss um að það muni ganga eftir?

Síðan langar mig í framhaldinu að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra um gríðarlega erfiða stöðu heimilanna og fjölskyldnanna í landinu. Hann var ekki viðstaddur þegar við ræddum efnahagstillögur sjálfstæðismanna en hefur hann skoðað þær breytingar sem við leggjum til að verði gerðar á lífeyrissjóðsgreiðslunum til þess að létta heimilunum í landinu að komast upp úr þessari efnahagslægð? Vill hann svara einhverju um það?