138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:05]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni þá tölu sem hún flutti og Framsóknarflokknum fyrir að vekja athygli á þessu hagsmunamáli að skoða til hlítar skuldastöðu heimilanna. Ég er hins vegar ekki alveg sammála þeirri nálgun sem lagt er upp með í þessu frumvarpi því ég tel varhugavert að nálgast atriðið með þessum hætti. Afskrift er í sjálfu sér takmörkuð auðlind. Því var velt upp fyrr á þessu ári að afskrifa húsnæðislán landsmanna um 20% sem mun kosta á bilinu 300–400 milljarða kr. Einhver þarf að borga fyrir þær afskriftir.

Eins og lagt er upp með í þessu frumvarpi verða það að einhverju leyti erlendir kröfuhafar sem taka á sig þessar afskriftir en ég get engu að síður ekki séð annað en að við séum að nýta peningana í ranga hluti. Ímyndum okkur flott hús upp á 100 millj. og einstaklingur skuldar af því 40 millj. Hann fær 8 milljónir afskrifaðar með þessum hætti. Ef við lítum svo á að afskriftin sé takmörkuð auðlind erum við þessu ekki að nýta þessar 8 milljónir á neitt sérstaklega góðan máta. Að því leytinu til tel ég skynsamlegra að við förum að dæmi félagsmálaráðherra eins og hann kynnti í gær og reynum að forgangsraða þeirri takmörkuðu auðlind sem við eigum til þeirra sem þurfa mest á því að halda. Hér eigum við eftir að fara í gegnum það að afskrifa hjá þeim sem þurfa mest á því að halda eins og framsögumaður kom inn á.

Mín fyrstu viðbrögð eru slæm nýting á takmarkaðri auðlind. Hér er slæm nýting á takmörkuðu fjármagni því ekki getur ríkið tekið á sig frekari skuldbindingar eins og við höfum þegar farið í gegnum. Ef við ætlum að láta bankana gera það þurfum við væntanlega að endurfjármagna bankana, sem þá kemur úr sameiginlegum sjóðum ríkisins.

Að lokum vil ég segja þetta: Ég tel engu að síður að við þurfum að taka þetta mál til efnislegrar meðferðar á vettvangi efnahags- og skattanefndar og ég hlakka til að taka þátt í þeirri umræðu. Þar getum við haldið áfram að skiptast á skoðunum.