138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil enn og aftur þakka framsóknarmönnum og þingflokki Framsóknarflokksins fyrir að leggja í þessa vinnu og leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar, sem er þörf. Eins og alþjóð veit hefur mikið verið rætt og ritað um skuldavanda heimilanna á undanförnum missirum. Því er algjörlega ljóst að það er að nást þverpólitísk samstaða um að grípa þurfi til aðgerða. Það hefur hins vegar ekki alltaf verið þannig. Við sátum hér á löngu sumarþingi þar sem talsmenn stjórnarflokkanna töldu sumir hverjir að ekki væri þörf á að skoða þessi mál. Það er því ljóst að baráttan hefur skilað árangri, barátta framsóknarmanna sem settu fram þessa 20%-leið sína fyrir síðustu kosningar, barátta samtaka eins og Hagsmunasamtaka heimilanna og eins tillögur okkar sjálfstæðismanna sem við lögðum fram, bæði fyrir síðustu kosningar, á sumarþinginu varðandi efnahagsmálin og þar á meðal varðandi skuldavanda heimilanna og svo sú tillaga sem við lögðum fram í síðustu viku.

Það er mjög mikilvægt að við náum einhverri sátt um það hvernig þetta viðfangsefni verður nálgast. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn lagt áherslu á að allir flokkar sem hér á þingi sitja komi saman að því borði að leita lausna til að við náum að fara í gegnum þetta stóra verkefni án þess að hér verði rof á milli flokka, rof á milli þings og þjóðar o.s.frv. eins og við upplifðum í sumar varðandi Icesave og virðist vera í uppsiglingu varðandi það málefni að nýju. Engu að síður er það áfangi að Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram þessa þingsályktunartillögu og vil ég fagna því mjög.

Ég vek hins vegar athygli á því sem kom fram í andsvari mínu við hv. þm. Eygló Harðardóttur að mjög áhugavert væri að fá kostnaðartölurnar fram. Það væri hægt að nálgast þær tölur með því einmitt að setjast saman að borðinu í sameiginlega þverpólitíska nefnd líkt og við sjálfstæðismenn höfum lagt til, og fara yfir þessa hluti frá A til Ö.

Ég er ekkert endilega sannfærð um það að þessi leið sé rétta leiðin, að fara í 20% afskriftir. Ég hef ákveðnar efasemdir um það en þetta er hins vegar hugmynd sem ég er tilbúin til að skoða. Ég tel að það sé farsælast fyrir okkur öll að við gerum það í sameiningu.

Skuldastaða heimilanna á Íslandi er alvarleg og við henni verður að bregðast tafarlaust. Við höfum horft upp á ríkisstjórn sem hefur verið aðgerðalaus í þessum málaflokki undanfarin missiri og ég tel alvarlegt að þannig hafi verið staðið að hlutunum. Við hefðum átt að nota tímann í sumar til þess einmitt að setjast yfir þetta saman, líkt og við sjálfstæðismenn lögðum til. En tíminn er einfaldlega naumur og það þarf að einhenda sér í þetta verkefni og við erum klár í slaginn. Ég sé að framsóknarmenn eru það líka.

Það er alveg ljóst að ef ekki verður gripið til aðgerða fljótlega til að taka á vanda skuldsettra heimila, þá verður niðurstaðan einfaldlega gjaldþrot, enn frekari greiðsluerfiðleikar, atvinnuleysi og jafnframt viðvarandi vonleysi. Það er eitthvað sem við ætlum ekki að láta gerast. Til þess erum við kosin hér á þinginu að koma fram með lausnir og mér sýnist að allir flokkar séu að gera það þessa dagana, þannig að það er vel.

Spurningin er: Hvaða aðferðafræði á að nota til þess að nálgast þetta verkefni? Við sjálfstæðismenn höfum haldið því á lofti að mjög mikilvægt sé að við áttum okkur á því hvaða grunngildi það eru sem við ætlum okkur að ná fram og verja með þeim aðgerðum sem nauðsynlegt er að fara í. Þar er eitt mikilvægt atriði sem einkennir íslenskt samfélag, það er að Íslendingar hafa hingað til viljað búa í eigin húsnæði. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð sem vill standa á eigin fótum og sú hefð ríkir hér að fólk búi í eigin húsnæði en ekki leiguhúsnæði. Þetta er gildi sem ég tel vert að verja. Það ber okkur að hafa í huga í þessari vinnu, og að sjálfsögðu eins og hér hefur komið fram er mikilvægt að aðgerðirnar séu almennar og það er einfaldlega vegna þess að ástandið er þannig að það þarf að grípa til slíkra aðgerða. Aðgerðirnar mega hins vegar ekki leiða til þess að það þurfi að hækka hér skatta umtalsvert og þær mega heldur ekki leiða til þess að fólk flýi úr landi eða aðgerðirnar séu vinnuletjandi, vegna þess að það er það versta sem út úr þessu getur komið.

Síðan þurfa aðgerðir að vera bæði auðskiljanlegar og gagnsæjar þannig að fólk viti hvar það standi og við hverju það megi búast. Jafnframt er alveg kristaltært að slíkar aðgerðir koma aldrei til með að bjarga öllu. Ástandið er bara einfaldlega þannig. Við þurfum að horfa framan í þá staðreynd og tala hreint út um hlutina. Það er gríðarlega harður vetur fram undan, við vitum það öll. Allir þurfa að taka ýmislegt á sig en ef við vitum hvert við erum að fara og vörðum leiðina þannig að fólk átti sig á því að niðurstaðan verði sú að þau grunngildi sem ég fór hér yfir verði í hávegum höfð held ég að okkur komi til með að sækjast ferðin á þennan áfangastað betur. Þannig að það er gríðarlega mikilvægt.

Forsenda þess að aðgerðir sem þessar skili einhverjum árangri er að sjálfsögðu að ríkisstjórnin nái einhverjum tökum á efnahagslífi þjóðarinnar. Það gengur ekki að við stöndum hér og samþykkjum tillögur ríkisstjórnarinnar að skattahækkunum fram eftir vetrinum. Það er ekki fullnægjandi. Það verður að sjálfsögðu, eins og maður hefur margtönnlast á hér í þessum ræðustól, að ná að klára að endurreisa bankakerfið og hagræða í rekstri hins opinbera. Það er gríðarlega mikilvægt.

Eins og ég kom inn á áðan höfum við sjálfstæðismenn lagt fram viðamikla þingsályktunartillögu varðandi bráðaaðgerðir vegna stöðu efnahagsmála hér á landi. Það er gríðarlega mikilvægt að haldið verði vel utan um hlutina á næstu missirum svo aðgerðir eins og þær sem hér er verið að ræða, almennar aðgerðir til að leysa skuldavanda heimilanna, skili árangri. Ég er bjartsýn á að það sé hægt en menn þurfa þá að horfa fram á veginn en ekki vera fastir í gamaldags lausnum sem felast allar í því að hækka skatta. Það er einfaldlega grundvallaratriði. Þar af leiðandi verðum við að horfa á allar leiðir sem hægt er að fara til þess að auka gjaldeyristekjur og þar með að stuðla að því að fyrirtækin hér á landi komi til með að leiða okkur út úr þeim vanda sem við erum komin í. Það er einfaldlega bláköld staðreynd og á hana verður að horfa. Það gengur þess vegna ekki að maður upplifi það eins og maður hefur verið að gera á undanförnum vikum að manni líði eins og ríkisstjórnin sé í því að reyna að bregða fæti fyrir þá erlendu fjárfestingarkosti sem hér hafa áhuga á að festa sig í sessi. Það gengur einfaldlega ekki upp. Menn verða að horfa til framtíðar og menn verða að gera umhverfið hér þannig að það sé aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta, vegna þess að við verðum að fá inn erlent fjármagn. Það er staðreynd og þetta helst allt í hendur við að byggja upp efnahaginn og þar á meðal að treysta hag íslenskra heimila. Það er grundvallaratriðið. Atvinnulífið og heimilin og þeirra örlög eru þannig samofin.

Hæstv. forseti. Tillaga framsóknarmanna er engu að síður mikilvæg. Hún leggur áherslu á að það eru til leiðir til að skoða og það er kominn fram, miðað við þær umræður sem hafa verið hér í dag, m.a. frá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna, kominn fram vilji til þess að grípa til aðgerða og það er vel. Það var ekki þannig í sumar. Ég vil sérstaklega minnast á baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna sem hafa lagt sig í líma, lagt nótt við dag að starfa að því að koma þessu sjónarmiði á framfæri og þess ber að minnast, vegna þess að þar eru á ferðinni samtök sem eru rekin af sjálfboðaliðum og þeir sem þar starfa eyða miklum tíma á eigin kostnað í að leysa þessi brýnu verkefni. Ástæðan fyrir því að menn fara í það er einfaldlega sú að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar virðist vera algjört og var það framan af sumri. Þannig að það er ástæðan. Við hér, Íslendingar, eigum þessu fólki miklar þakkir að gjalda. Sum þeirra sjónarmiða hafa ratað hérna inn í ýmsar þingsályktunartillögur og lagabreytingar og er það vel.

Hæstv. forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að við sem sitjum á Alþingi horfum björtum augum til framtíðarinnar. Til að svo megi verða verðum við að eygja von. Ég tel að við Íslendingar höfum alla burði til þess að komast hratt og vel út úr þessari efnahagslægð. Það höfum við vegna þess að við höfum hér sterkar grunnstoðir. Við eigum gott, vel menntað fólk, þjóðin er tiltölulega ung og það kemur til með að hjálpa okkur í framtíðinni. En til þess að það megi verða að við komumst hratt upp úr þessu er gríðarlega mikilvægt að við reynum að ná saman, flokkarnir sem hér sitja, um lausnir og að við tölum af ábyrgð og festu um þær aðgerðir sem þarf að fara í og við viðurkennum vandann. Nú er svo komið að vandinn hefur verið viðurkenndur, ekki bara af stjórnarandstöðunni, ekki bara af samtökum sem starfa hér úti í bæ, heldur einnig af ríkisstjórnarflokkunum og er það vel. Ég vil enn og aftur óska framsóknarmönnum til hamingju með framkomna þingsályktunartillögu.