138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að beina orðum mínum sérstaklega til fulltrúa þingflokka Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar, formanns þingflokks VG, hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, og þá varaformanns þingflokks Samfylkingar, Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, um Icesave-málið.

Forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa á blaðamannafundum lýst því yfir að þeir telji líklegt, eftir því sem ég skil best, að Icesave-málið hafi meirihlutastuðning á þinginu en það var greinilegt af svörum þeirra að þeir voru ekki vissir.

Það liggur líka fyrir að áhrifamikill þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fyrrverandi ráðherra hefur lýst því að hann hafi ekki gert upp hug sinn til málsins. Við minnumst þess líka frá liðnu sumri að afstaða nokkurra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leiddi til þess að meðferð ríkisábyrgðarfrumvarps hæstv. fjármálaráðherra gerbreyttist í meðförum þingsins. Það var endurskrifað frá grunni.

Af þessum sökum finnst mér mikilvægt að fulltrúar þingflokka Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar geri hér grein fyrir því hvort samþykki stjórnarflokkanna, væntanlega á sunnudag eða mánudag, hafi falið í sér stuðning við það frumvarp sem nú liggur fyrir eða þá að þingflokkarnir hafi samþykkt framlagningu þess. Í öðru lagi held ég að það sé mikilvægt að fram komi hvort gerðir voru fyrirvarar við afgreiðslu málsins af hálfu einstakra þingmanna eins og algengt er, annaðhvort við málið í heild eða einstök atriði þess. Í þriðja lagi vildi ég spyrja, að gefnu tilefni, hvort þingflokkarnir hafi farið yfir frumvarpið og fylgigögn þess áður en málið var samþykkt af þeirra hálfu (Forseti hringir.) en eins og kunnugt er eru fordæmi fyrir því að slík mál hafi verið samþykkt blindandi og án þess að menn hafi haft nokkur skrifleg gögn fyrir framan sig, eins og hv. þm. (Forseti hringir.) Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur greint frá opinberlega.