138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

Fjármálaeftirlitið.

[15:22]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég held að ég verði að taka upp hanskann fyrir almenna starfsmenn, bæði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins og reyndar einnig almenna starfsmenn í bankakerfinu, ef út í það er farið. Það er vissulega rétt að hér fór margt úrskeiðis á undanförnum missirum, það ber einhver ábyrgð á því en það eru ekki almennir starfsmenn. Það eru þeir sem settu leikreglurnar og það eru stjórnendur, hugsanlega stjórnmálamenn og ýmsir aðrir, sem bera ábyrgðina. Það er ekki hægt að skella skuldinni yfir á almennt starfsfólk. Það væri eins og að kenna þeim sem mokuðu kol eða unnu í eldhúsinu um Titanic-slysið. Það er einfaldlega ekki þannig. Það eru skipstjórinn og stýrimennirnir og þeir sem hönnuðu fleytuna sem bera ábyrgðina. Það eru ekki almennir starfsmenn þannig að ég vil fyrir hönd þeirra einfaldlega fara fram á þingmaðurinn dragi ásakanir á hendur þeim til baka.