138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma aðeins inn í þessa umræðu og í raun og veru aðeins vekja athygli á því að hér svaraði hv. þm. Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, að ekki væri til rafmagn í landinu til að framleiða meira grænmeti. Síðan kemur hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og segir: Hér er nóg rafmagn, bæði fyrir stóriðju og eins fyrir garðyrkjuna. Það sem hann sagði var: Það þarf pólitískan vilja til að taka þessa ákvörðun. Það er þar sem upp á stendur og það þarf að gera. Skal ég nú heita á hann að fylgja honum í því og að við sjálfstæðismenn munum gera það. En ég verð að segja að mér þótti í upphafi mjög dapurlegt hvernig formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar nálgaðist þessa umræðu vegna þess að það sem verið er að ræða um í dag er grundvallaratriði, að menn leiðrétti það sem þarna ber á milli. Garðyrkjubændur kaupa mikið rafmagn og þeir eiga að njóta þess og það er alveg rúm fyrir hvort tveggja, hvort heldur sem er álver eða garðyrkja, og menn eiga ekki að setja þetta í þennan farveg.

Ég vil bara vekja athygli á öðru sem hefur reyndar komið fram, að raforkuverð til garðyrkjubænda hefur hækkað um 30% á þessu ári. Það er 17% samdráttur í framleiðslu á agúrkum og ekki bara það, heldur verða menn líka að átta sig á því að það er óvissa. Nú er búið að setja inn svokallaða orku- og auðlindaskatta og það setur atvinnugreinina í óvissu. Það virðist vera leynt og ljóst stefna ríkisstjórnarinnar að setja alla atvinnuvegi í óvissu, alveg sama hver það er, þótt þeim hugnist stundum úr ræðustól Alþingis að gera það með þeim hætti.

Mig langar að vekja athygli á einu, frú forseti, því sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á, það er verið að skipa í nefndir og ráð — og hver er svo niðurstaðan? Það kemur fram, við alþingismenn fengum bréf 29. september þar sem forustumenn garðyrkjubænda lýstu þessum áhyggjum sínum. Hvað hefur gerst síðan? Það hefur ekki gerst neitt. Síðan kemur fram í viðtali við formann garðyrkjubænda að þeir hafi árangurslaust reynt að fá áheyrn hjá stjórnvöldum. Það lýsir (Forseti hringir.) bara vilja stjórnvalda til málsins. Í þessu máli þarf, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði, pólitískan vilja.