138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:22]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Heilbrigðisþjónusta er einn þeirra hluta sem við Íslendingar getum verið stolt af. Maður er ekki stoltur af öllu sem hefur gengið yfir á Íslandi á undanförnum árum, en það verður þó ekki frá okkur tekið að suma hluti gerum við vel og þeir eru okkur til sóma. Þar vil ég nefna heilbrigðisþjónustuna fyrst og fremst. Um hana vil ég standa vörð á þessum tímum boðaðs niðurskurðar. Það sem virkar, það sem eykur hamingju þjóðarinnar og starfsgetu skulum við verja af öllum kröftum og finna aðferðir til að hagræða í stað þess að skera niður og ef við þurfum að skera niður skulum við gera það á sviði þar sem eitthvað má missa sín.

Í íslensku heilbrigðisþjónustunni er eitt djásn í krúnunni, sú heilbrigðisþjónusta sem stendur alkóhólistum og vímuefnafíklum til boða á vegum SÁÁ. Mér vitanlega eru íslenskir alkóhólistar eini sjúklingahópurinn sem hefur tekið sig til og reist spítala handa sjálfum sér. Ekki nóg með það, heldur hefur hann líka (Forseti hringir.) rekið þennan spítala með frábærum árangri á heimsmælikvarða í nokkra áratugi og lagt fram u.þ.b. 20% af rekstrarkostnaði. Um þetta skulum við standa sérstakan vörð. (Forseti hringir.)