138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Flóahrepps.

97. mál
[18:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið og þeim ber að setja sér aðalskipulag sem hin ágæta sveitarstjórn Flóahrepps hefur gert í því sveitarfélagi. Þann 4. mars 2009 sendi Skipulagsstofnun umhverfisráðherra aðalskipulag Flóahrepps áranna 2006–2018 ráðherra til staðfestingar, samkvæmt 19. gr. skipulags- og byggingarlaga. Frá þeim tíma hefur málið legið inni í ráðuneyti og eru ýmsar skýringar á því en engu að síður tel ég ljóst að málið hafi dregist fram úr hófi. Þess vegna finnst mér ástæða til þess að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvað líði afgreiðslu ráðuneytisins á þessu skipulagi en þannig háttar til að það er ekkert gildandi skipulag, aðalskipulag, í gamla Villingaholtshreppi og meðan ekkert aðalskipulag liggur fyrir er ekki hægt að fara í neinar framkvæmdir þar. Því er mjög brýnt að hraða þessu máli. Engu að síður hefur málið legið í ráðuneytinu í margar vikur. Ég tel mjög gott að fá það upplýst hér hvernig háttar til og hvenær þess er að vænta að hægt sé að afgreiða þetta aðalskipulag út úr ráðuneytinu.

Jafnframt tel ég ágætt að ráðherra fari aðeins yfir stjórnsýsluna á þessu máli vegna þess að það er vissulega flókið. Þarna fóru ákveðnar kærur af stað en það hefur verið rætt um góða stjórnsýsluhætti hér í þessum stól í sumar varðandi ýmsar ákvarðanir af hálfu umhverfisráðherra og því væri mjög gott að smáumræða færi fram um þetta. Þar er þá að sjálfsögðu verið að tala um meginreglu stjórnsýsluréttarins eins og jafnræðisregluna, málshraðaregluna o.s.frv. Inni í þessu máli er slíkt flækjustig að ákveðinn löggerningur var kærður og fór inn í fagráðuneyti sveitarstjórnarmála, til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en úrskurður þar lá fyrir fyrir nokkrum vikum síðan. Og þar sem valdmörk milli ráðuneytanna liggja ljós fyrir, þ.e. hlutverk umhverfisráðherra samkvæmt skipulags- og byggingarlögum til að staðfesta þetta aðalskipulag og fara yfir form þess og ég tel að það sé alveg ljóst að það hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir við það, enda kom fram í erindi Skipulagsstofnunar sem ég vitnaði til áðan, 4. mars 2009, að Skipulagsstofnun taldi skipulagstillöguna uppfylla form og efniskröfur byggingarlaga, þess vegna ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að umhverfisráðherra (Forseti hringir.) staðfesti skipulagið.