138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:28]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki alveg viss um að allir átti sig á því hve mikla þýðingu þetta mál hefur sem við erum að ræða hérna í dag. Hér er um að ræða að ESA hefur staðfest og heimilað fjárfestingarsamninginn vegna álversins í Helguvík með minni háttar breytingum. Þetta var eitt mikilvægasta málið sem var afgreitt frá þinginu í vor og framvinda þessarar orkunýtingar hefur grundvallast á þessum fjárfestingarsamningi sem þingið afgreiddi í apríl. Núna hefur málinu undið þannig fram að ESA hefur staðfest hann með þessum breytingum og það hefur gífurlega mikla þýðingu fyrir verkefnið. Hér er um að ræða tiltekin vatnaskil í þessu máli hvað varðar orkunýtingu í Helguvík og suður með sjó.

Svo getum við rætt um það lengi og oft hvernig við eigum að nýta orkuna okkar, hvort við eigum að byggja álver eða eitthvað annað. Hér er um það að ræða að fyrir nokkrum árum var fengin niðurstaða í það meðal heimamanna, stjórnvalda, fjárfesta og annarra að fara þá leið að byggja álver í Helguvík og nýta þannig orkuna. Önnur tímamót áttu sér stað í þessari viku, í þessu verkefni líka, þegar loksins losnaði um margra mánaða umræður um lánsloforð til Orkuveitu Reykjavíkur upp á rétt um 30 milljarða kr. fyrir nokkrum dögum sem skiptir að mínu mati algjöru meginmáli í þessum stórfjárfestingum í orkumálum á þessu máli sem var samþykkt í vor. Núna stöndum við frammi fyrir því að ESA hefur heimilað málið með þessum minni háttar breytingum og þess vegna ber að vekja sérstaka athygli á því hve þýðingarmikið þetta mál er fyrir orkunýtinguna og fjárfestingarnar suður með sjó eins og málið stendur núna.

Ég spyr hæstv. ráðherra að því sérstaklega, af því að þegar hún var formaður iðnaðarnefndar kom hún mikið að þessu máli með fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra Össuri Skarphéðinssyni og þau komu því til þingsins og í gegnum það í vor ásamt að sjálfsögðu öðrum: Hvað skiptir lánsfjármögnun Orkuveitunnar miklu máli upp á (Forseti hringir.) framvindu mála á næstu mánuðum og þær virkjanir sem standa á bak við 1. og 2. áfanga Helguvíkurálversins?