138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

ummæli í utandagskrárumræðu -- loftslagsráðstefna -- þjóðgarðurinn Snæfellsjökull -- lán OR.

[10:46]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal beindi fyrirspurn til mín varðandi lán Evrópska fjárfestingarbankans til Orkuveitunnar og vildi sérstaklega fá að vita hvort mér fyndust lánakjörin á þessu láni ekki hagstæð miðað við þau lánakjör sem við fáum á lánasamningum við Breta og Hollendinga. Jú, það er vissulega rétt að þessi lánakjör á láni Orkuveitunnar eru mun betri en þetta eru ekki alveg sambærileg lán. Lán Orkuveitunnar átti að koma til greiðslu í september á síðasta ári en greiðslunni var frestað m.a. vegna bankahrunsins og það hafa staðið yfir nokkurs konar samningaviðræður milli stjórnar Orkuveitunnar og bankans um hvernig sé best hægt að tryggja greiðslu á þessu láni. Evrópski fjárfestingarbankinn hefur miklar áhyggjur af því að Orkuveitan geti ekki staðið í skilum þar sem skuldir Orkuveitunnar hækkuðu gífurlega í kjölfar hruns á gengi krónunnar.

Ég vil þó taka fram að ég er alveg sammála því að vextir á lánasamningum Breta og Hollendinga eru ótrúlega háir og það hefur sérfræðingur í skuldaskilum, Lee Buchheit, sem kom hingað til lands, jafnframt staðfest. Hann rökstyður það með því að þessir lánasamningar séu með fullri ríkisábyrgð og eigi þar af leiðandi ekki að vera með hærri vexti en 3,5%.