138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

aukning aflaheimilda.

[14:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hvernig taka menn ákvörðun um fyrningarleið? Ég velti því upp í ljósi þeirrar ágætu ræðu sem hv. þm. Atli Gíslason flutti hér áðan, eða þann hluta sem ég heyrði af henni réttara sagt. Við þurfum að taka ákvarðanir af ábyrgð, það er rétt. Ég tel að það hafi ekki verið ábyrg framsetning sem gerð var varðandi hugmynd um fyrningarleið sem hæstv. ríkisstjórn setur nú fram. Ég held að þarna fari ekki alveg saman sú ákvörðun og sú ágæta ræða sem hv. þingmaður hélt hér áðan.

Ef einhvern tímann eru rök fyrir því að auka við fiskveiðar, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er það núna. Það er vegna þess að þjóðarbúið þarf á því að halda. Það er ljóst að það er mikið af fiski í sjónum, það segja okkur sjómenn, það segja okkur útgerðarmenn og það segja okkur líka vísindamenn í raun og veru. Við eigum að nota tækifærið núna og auka þessar veiðar því að þjóðarbúið þarf svo sannarlega á því að halda. Við verðum að taka ákvarðanir hratt og örugglega, það hefur verið sagt hér í þessum ræðustól oftar en einu sinni. Og núverandi ríkisstjórn ber ábyrgð á því að hér séu teknar ákvarðanir sem leiða til tekjuöflunar fyrir þjóðarbúið. Hér er ein aðferð sem hægt er að beita mjög hratt og örugglega, jafnvel þótt hún sé tímabundin. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra, því að ég veit að hann er mjög hugsandi yfir því hvernig við getum aflað tekna fyrir þjóðarbúið, að hann skoði það vandlega en ekki samt of lengi, að aukið verði við aflaheimildir til að þjóðarbúið geti hugsanlega fengið þá 30 milljarða sem hér er verið að ræða um.

Svo vil ég að endingu velta einu upp í ljósi þess að það er nefnd að störfum, sem ríkir þokkaleg sátt í, enn þá alla vega, að endurskoða sjávarútvegskerfið. Er rétt að fyrningarleið hangi enn þá yfir okkur? Ég hef ekki kynnt mér það frumvarp sem nú hefur verið lagt fram, en er skynsamlegt að koma fram með frumvörp á sama tíma og þessi nefnd er að störfum? Það má kanna það sem er gott í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) en ég set spurningarmerki við þetta.