138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að við ættum ekki í þessum sal að hlæja að örlögum þess fólks sem var múrað inni á sinni tíð, (Gripið fram í.) en ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir spurningarnar og innlegg hans í þessa umræðu. Auðvitað fer fram lifandi umræða í stjórnarflokkunum um það hvaða aðgerðir eru skynsamlegar á þessu stigi í ríkisfjármálunum og með hvaða hætti það verði best gert. Ég undirstrika að þar hafa ekki verið afgreiddar neinar tillögur þannig að sögusagnir um slíkt eru úr lausu lofti gripnar. Þó að alls kyns hugmyndir hafi auðvitað verið kynntar og ræddar hefur ríkisstjórn ekki afgreitt frá sér neinar tillögur til þingflokka stjórnarflokkanna á þessu stigi.

Við lifum á ögurstundu í lífi þjóðarinnar. Við erum eftir gríðarlegt hrun með ríkissjóð sem er rekinn með 200.000.000.000 króna halla og fram undan er mesta átak í ríkisfjármálum fyrr og síðar. Það verður gríðarlega vandrataður meðalvegur og ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns í því, annars vegar að standa fyrir nægilega miklum skattahækkunum til að við getum til framtíðar staðið undir þeirri velferðarþjónustu sem við viljum hafa í samfélaginu en um leið ekki svo miklum skattahækkunum að það drepi hér niður allt frumkvæði og vöxt í samfélaginu.

Í því efni er þess vegna mjög mikilvægt að margar hugmyndir séu ræddar, verið sé að leita viðbragða og hafa sem víðtækast samráð og að í þinginu fari fram vönduð og málefnaleg umfjöllun um það og að þingmenn úr öllum flokkum leggi fram hugmyndir sínar og tillögur í því efni. Ég undirstrika að ekki verður hjá því komist að kalla aftur ýmsar af þeim skattalækkunum sem með óraunhæfum hætti var ráðist í á síðustu árum. Það er þannig að við höfum lifað um efni fram og það er óhjákvæmilegt að við tökum á því, en við verðum að gera það með meðalhófi og leitast við að gæta að heimilunum og fjárhag þeirra, (Forseti hringir.) einkum skuldsettum heimilum, barnafjölskyldum og lágtekjufólkinu í landinu.