138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Hér er ég komin til að ræða eins konar hreingerningar. Mig langar að gera tíða tóbaksnotkun hv. þingmanna og hæstvirtra ráðherra í þingsal sem og á nefndarfundum að umfjöllunarefni mínu. Nú eru reykingar bannaðar í öllu húsnæði þingsins og reyndar húsnæði ríkisins líka. Þá er öll neysla matar og drykkjar, önnur en vatns, bönnuð hér í þingsal og okkur þingmönnunum er gert að klæða okkur snyrtilega.

Því finnst mér skjóta skökku við þegar hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar taka hér í nefið eins og ekkert sé sjálfsagðara. [Hlátur í þingsal.] Ég tek fram að menn fara misdult með þetta og eru missnyrtilegir, sumum tekst að gera þetta án þess að mikið beri á en aðrir eru hreinlega subbulegir og veifa vasaklútum með brúnum horklessum um þingsalinn — og það á tímum svínaflensunnar.

Frú forseti. Landlæknisembættið bendir á að reyklaust tóbak sé langt í frá skaðlaust. Í því eru a.m.k. 28 þekktir krabbameinsvaldar og sumir í mun meira magni en í reyktóbaki. Það er þó ekki einungis af umhyggju fyrir heilsu hv. þingmanna sem ég vek athygli á þessu máli, tóbaksneysla veldur töluverðum sóðaskap í þingsal, af henni er lykt sem mér finnst ekki góð, þótt það kunni að vera smekksatriði, auk þess sem tóbakskorn dreifast um borð þingmanna og ég hef heyrt að þau hafi valdið bilun á kosningahnöppum þannig að atkvæðagreiðslukerfi þingsins virkar ekki alltaf sem skyldi. Það er auðvitað grafalvarlegt mál.

Mig langar að beina því til þeirra hv. þingmanna sem hlut eiga að máli að þeir hætti neyslu tóbaks í þingsal og á fundum þingnefnda og skora á virðulegan forseta okkar að íhuga að taka upp reglur um þetta atriði.