138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ferðasjóður ÍSÍ gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki við það að jafna aðstöðumun fólks í landinu þegar kemur að íþróttaiðkun. Það var í kjölfar áralangrar baráttu þáverandi hv. þingmanns, Hjálmars Árnasonar, að að lokum var samþykkt þingsályktun um ferðasjóð íþróttafélaga sem markaði þáttaskil í þessu og hleypti þessu máli áfram. Í kjölfarið hefur miklum fjármunum verið varið til þessa brýna verkefnis, því að ef við höfum trú á því og viljum efla íþróttalíf á landsbyggðinni, styðja við unga fólkið sem sinnir íþróttastarfi á landsbyggðinni, er jöfnunarsjóður sem þessi gríðarlega mikilvægur. Það var því mikil framsýni hjá hv. þingmanni og þeim fluttu þessa þingsályktunartillögu að berjast fyrir þessu máli í öll þessi ár sem sýnir að baráttan inni í þinginu til að koma góðum málum til leiðar getur vissulega skilað sínu, eins og barátta hv. þingmanns þá. Ég vona það og fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra ætlar að standa vörð um þennan mikilvæga sjóð sem gegnir mikilvægu hlutverki í landinu. (Forseti hringir.)