138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

umönnunarbætur.

106. mál
[18:48]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvaða rök mæli með því að skera niður umönnunarbætur til foreldra fatlaðra barna. Stutta svarið við þeirri spurningu er að í sjálfu sér mæla engin rök með því önnur en að til félags- og tryggingamálaráðuneytisins eru gerðar umtalsverðar sparnaðarkröfur. Þær eru í almannatryggingakerfinu, kerfi atvinnuleysistrygginga og kerfi félagslegrar aðstoðar á þessu ári um 8 milljarðar af um 100 milljarða potti. Það eru 8%.

Allur niðurskurður í þeim málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra er sársaukafullur þar sem stærstu útgjaldaliðir ráðuneytisins snúa að viðkvæmum hópum í samfélaginu þar sem margir þurfa að reiða sig alfarið á bætur almannatryggingakerfisins til framfærslu. Eins og kunnugt er höfum við ekki komist hjá því að skera niður bætur til aldraðra og öryrkja og gerðum það í sumar. Með þeim aðgerðum var lagður grunnur að 4 milljarða sparnaði á næsta ári en frekari aðhaldskrafa kom síðan fram við fjárlagagerðina undir sumarlok. Þá horfðum við einfaldlega til þess að þessi tiltekni bótaflokkur er einn fárra bótaflokka sem ekki hafði verið snertur í fyrri aðgerðum.

Þær umönnunargreiðslur sem hér um ræðir eru greiddar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð til framfærenda fatlaðra eða langveikra barna. Tilgangur þeirra er að mæta kostnaði foreldra ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Staðreyndin er aftur á móti sú að þessar greiðslur eru og hafa verið inntar af hendi í mörgum tilfellum án þess að foreldrar hafi framvísað reikningum eða með öðrum hætti sýnt fram á kostnað.

Hagræðingarhugmyndir hafa ekki verið verðlagðar í þaula en við horfum til þess að eftirlit með greiðslunum verði bætt og fólk sýni fram á að það eigi rétt á þeim greiðslum sem það sækir um á þessum grunni. Þannig verði tryggt að greiðslur fari til þeirra sem eiga réttmætt tilkall til þeirra en ekki annarra. Að öðru leyti hafa hagræðingarhugmyndir ekki verið nánar útfærðar.

Ég vil líka að það komi fram að árið 2007 var tekið upp nýtt kerfi samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem sett voru á árinu 2006. Tilgangur þessa kerfis er að tryggja foreldrum sem geta ekki stundað vinnu eða nám vegna langveikra eða alvarlega fatlaðra barna fjárhagsaðstoð, svokallaðar foreldragreiðslur. Þessi lög voru síðan stórbætt á síðasta ári til að auka enn frekar rétt foreldra til greiðslna. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 22/2006 kemur fram að eðlilegt sé að ákvæðin um umönnunargreiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að skýra betur reglur um aðstoð til foreldra langveikra og fatlaðra barna vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við veikindi eða fötlun barnanna. Þá segir í greinargerðinni að jafnframt skuli efna til endurskoðunar á umönnunargreiðslum innan tveggja ára frá gildistöku frumvarpsins samhliða því greiðslukerfi sem lagt var til með frumvarpinu frá árinu 2007 og þar m.a. höfð hliðsjón af reynslunni.

Ég hef því ákveðið að setja á laggirnar starfshóp sem fær það verkefni að hefja heildstæða endurskoðun á þeim málaflokki sem hér um ræðir og meta hann í heild sinni í ljósi reynslunnar. Við þurfum auðvitað að horfa til þess að umfang þessara greiðslna og útgjöld vegna þeirra hafa aukist mun hraðar og meira en lagt var upp með á undanförnum árum. Í því sambandi legg ég hins vegar áherslu á mikilvægi þess að hafa áfram gott samstarf við hagsmunasamtök, svo sem Þroskahjálp og Umhyggju. Niðurstaða þessarar nefndavinnu getur því vonandi lagt grunn að góðri útfærslu á aðhaldsaðgerðum á þessu sviði í framhaldinu.