138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

umönnunarbætur.

106. mál
[18:58]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki í þeirri góðu stöðu að geta goldið varhuga við því að leggja verðmiða á umönnun fatlaðra barna eða aðra umönnunarþjónustu í landinu. Mér er einfaldlega falið það verk af fjárveitingavaldinu að skera niður í þessum málaflokki. Mér finnst dálítið billegt af hv. þingmönnum að ætla sér að skammta okkur með einhverjum hætti siðferðileg mörk í þeim efnum. Um leið og gerð er aðhaldskrafa á ráðuneyti eins og félags- og tryggingamálaráðuneytið munum við snerta við grundvallarþjónustu, annað er óhjákvæmilegt. Við hlífum þjónustu við fatlaða í rekstri ráðuneytisins á næsta ári þannig að við skerum þar einungis niður um 3,3%, sem sagt vel undir 5% mörkin. Engu að síður eru það röskar 400 millj. kr. og auðvitað mun einhver finna fyrir því. Það er einfaldlega ekki hægt að halda því fram að einhverjir þættir í þessum málaflokki séu þannig að það megi ekki endurskoða þá eða velta upp kostnaðarþáttum hvað þá varðar.

Viðhorfið til þessa tiltekna fyrirbæris, umönnunarbótanna, skiptist nokkuð í tvö horn varðandi hvort þær eigi að vera kostnaðartengdar eða ekki. Hingað til hefur sem sagt ekki verið kallað eftir kostnaði en að því var stefnt í upphafi. Ég tel mjög mikilvægt að við förum yfir þetta svið og leitum að hagræðingarkostum, alveg eins og við leitum að þeim alls staðar annars staðar, vegna þess að það er mikilvægt að endurskoða öll mannanna verk og greiðslurnar hafa vaxið gríðarlega á undanförnum árum, um 50% á milli áranna 2004 og 2008. Við þurfum einfaldlega að grennslast fyrir um orsakir þess. Við þurfum að leita að góðum leiðum til þess að skera niður þarna eins sársaukalítið og kostur er. Ég get því miður ekki leyft mér að telja að einhverjir tilteknir þættir velferðarþjónustunnar (Forseti hringir.) séu algjörlega hafnir yfir að við endurmetum þá. Við verðum að endurmeta öll okkar verk og (Forseti hringir.) ná fram sparnaði við þær aðstæður sem eru núna (Forseti hringir.) þótt við reynum að hlífa grundvallarþjónustu eins og við höfum gert.