138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[12:22]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst gæta pínulítils misskilnings í ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur eða kannski má orða það þannig að mér hafi fundist hún gera svolítið lítið úr þeirri þingsályktunartillögu sem liggur fyrir um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur því að hv. þingmaður talaði um að hér væri um skoðanakönnun að ræða. Hún orðaði það þannig að hér væri um skoðanakönnun að ræða og að þingmenn væru ekki bundnir af niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég lít hins vegar svo á, og það er mín persónulega skoðun, að niðurstaða ráðgefandi skoðanakönnunar hljóti að vera pólitískt skuldbindandi fyrir þá þingmenn sem sitja á Alþingi. Auðvitað er það undir hverjum og einum komið því að það er rétt sem hv. þingmaður sagði, hver og einn þingmaður er bundinn samvisku sinni og sannfæringu, en ég er þeirrar skoðunar að það gæti orðið býsna erfitt fyrir þingmenn að ganga gegn afgerandi vilja sem birtist í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu, ég tala nú ekki um ef afgerandi niðurstaða kemur út úr ráðgefandi skoðanakönnun. Sjálf mundi ég líta svo á að ég væri siðferðilega bundin af þeirri niðurstöðu, ég tala nú ekki um ef hún væri mjög afgerandi, og með fullri virðingu fyrir ræðu hv. þingmanns fannst mér hún gera svolítið lítið úr þessu frumvarpi með því að tala um að hér væri eingöngu um skoðanakönnun að ræða. Hér er um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu að ræða sem ég tel að skipti mjög miklu máli.