138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins sem hækkaði frítekjumarkið í fyrra um meira en 18.000 kr. Það gerðist um síðustu áramót. Það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins sem hækkaði líka tekjuskattinn í fyrra og vörugjöldin, sannarlega gerðum við það á síðasta ári. Við mælum hér fyrir því að menn gangi ekki um of á þessa tekjuskatta með óraunhæfum skattahækkunum.

Við svöruðum þeirri spurningu í fyrra hvort ekki þyrfti að hækka skattana, og við gerðum það. Þessi ríkisstjórn talar fyrir því að verja kjör þeirra lægst launuðu. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem hækkaði frítekjumarkið um 18.000–19.000 kr. í fyrra, það er þessi ríkisstjórn sem afnemur vísitölutengingu persónuafsláttar, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kom á vísitölutengingu persónuafsláttar. Þessi ríkisstjórn leggur til að hún verði afnumin og hún þykist tala fyrir kjörum þeirra lægst launuðu. Hún ætlar reyndar líka að afnema vísitölutengingu við almannatryggingabæturnar.

Er það ríkisstjórn sem talar fyrir kjörum þeirra lægst launuðu? Ég held ekki. Því er ósvarað hérna í umræðunni hvort ríkisstjórnin ætlar að taka upp þriggja þrepa skattkerfi og því er líka ósvarað hvort hátekjuskatturinn, sem nýlega var settur á, eigi að lifa þrátt fyrir hið nýja þriggja þrepa skattkerfi sem hefur verið í umræðunni. Það mundi leiða til þess að hæstu laun yrðu skattlögð um 55%.

Hér er talað um að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafi skattbyrðin aukist. Hæstv. fjármálaráðherra, sem kallar eftir málefnalegri og yfirvegaðri umræðu en er í sömu ræðunni með persónulegan skæting í minn garð, sagði að hér hefði skattbyrðin aukist svo mikið að sett hefði verið heimsmet á Íslandi. Og hvaða ályktanir dregur hann af þeirri staðreynd? Jú, við skulum hækka skattana. Í sömu ræðunni og sagt er að skattbyrðin hafi aukist svo mikið að heimsmet hafi verið sett eru færð rök fyrir því að nú þurfi að hækka skatta. Þessi rök halda ekki vatni, standast enga skoðun. Það sem er jákvætt í máli hv. formanns efnahags- og skattanefndar og hæstv. fjármálaráðherra er það að þeir opna fyrir þá leið að nýta skattstofnana í séreignarsparnaðinum. En þeir hafa það ekki í brjósti sínu að þakka Sjálfstæðisflokknum fyrir þá tillögu, þeir hafa það ekki í sér að rétta sáttarhönd til stjórnarandstöðunnar og segja: Ja, það komu góðar tillögur sem við erum að taka til skoðunar. Nei, þeir vilja tala um þetta sem sína eigin tillögu og „pólarísera“ alla umræðu. Og það held ég að sé eitt helsta vandamálið með þessa ríkisstjórn, henni er svo mikið í mun að „pólarísera“ alla pólitíska umræðu í landinu að hún ýtir undir ósamstöðu, óöryggi, setur stöðugleikasáttmálann í uppnám og viðheldur spennustigi á Alþingi, sem er þveröfugt við það sem þjóðin kallar eftir. Við erum (Forseti hringir.) tilbúin að taka þátt í að taka erfiðar og réttar ákvarðanir. Ríkisstjórnin hefur engan áhuga á slíku samstarfi.