138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem verið er að gera með þessum breytingum varðandi geymsluréttinn er að það er fyrst og fremst verið að stuðla að aukinni sókn, það er alveg rétt, og sú sókn verður að sjálfsögðu ekki hagkvæmari, vegna þess að sveigjan sem fólst í því að geta geymt þetta á milli ára var mjög mikilvæg, ekki síst af markaðslegum ástæðum.

Þegar það gerist eins og t.d. núna að verið er að skera niður ýsukvótann að mig minnir um 30 þúsund tonn á milli ára er það einfaldlega vegna þess að núna er að fara út úr veiðinni mjög stór árgangur, 2003-árgangurinn, og það er auðvitað mjög mikilvægt að menn geti búið til ákveðinn stöðugleika til þess að geta sinnt mörkuðunum betur. Ég skil satt að segja ekki hvað vakir fyrir hæstv. ráðherra að reyna að koma í veg fyrir það að menn geti hámarkað verðmætasköpun í sjávarútveginum eins og klárlega er verið að gera með þessu. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að þetta mundi væntanlega leiða til þess að framboð á leigukvóta yrði aukið, sem er út af fyrir sig sjónarmið, en þá ætti hæstv. ráðherra a.m.k. ekki að vera með 3. gr. frumvarpsins sem felur það í sér að draga úr framboði á leigukvóta.