138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

krafa innlánstryggingarsjóðs.

[15:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður er mjög upptekinn af þessu. Nú hefur því þegar verið svarað og ætti ekki að þurfa að endurtaka svo sjálfsagt svar að þessi mál fara nákvæmlega að lögum og þau geta ekki öðruvísi farið, þ.e. hvað varðar uppgjörið, kröfuafstillinguna og dagsetningar í þeim efnum.

Varðandi hinn efnahagslega þátt í þessu er hann að sjálfsögðu undirorpinn margs konar óvissu, eins og hv. þingmaður veit manna best. Það er ekki bara þetta atriði eitt og sér. Þetta er háð óvissu um gengi krónunnar, um verðbólgu í Bretlandi, um gengi pundsins, um endurheimtur úr búinu. Þar er staðan þannig að hluti eignanna er í erlendri mynt, hluti í innlendum krónum, og þegar þetta er vegið og metið er það niðurstaða okkar að þessi óvissuþáttur sem slíkur sé ekki stór. Það er hins vegar samanvegin heildaróvissa (Gripið fram í.) sem getur gengið á ýmsa enda og kanta og þegar upp er staðið getur enginn nema framtíðin svarað því endanlega, nákvæmlega og endanlega hvernig okkur gengur með þetta. En horfurnar hafa tvímælalaust verið batnandi. Líklegt endurmat eigna hefur hækkað núna í tvö síðustu skiptin og það hefur verið skoðað. Við skulum bara vona að það haldi því áfram og það gleður vonandi hv. þingmenn ef horfir í það að búið eigi nokkurn veginn fyrir upphaflegum kröfum, kannski 90–95%, jafnvel 100%. Það kann jafnvel að skýrast á næstu (Gripið fram í.) vikum ef ekki mánuðum, m.a. í ljósi þess hvernig leysist úr tilteknum stórum hagsmunamálum gamla Landsbankans sem enn eru útistandandi. Þar geta verið heilmiklir hagsmunir í húfi og óvissan er á þá hlið að endurheimtan verði meiri en minni vegna þess að menn hafa alltaf lagt varfærið mat til grundvallar. Má ég minna á að það var ekki verið að fegra myndina þegar lagt var upp með 75% endurheimtuhlutfall sem núna er talið verða a.m.k. 90%. (HöskÞ: Getum við fengið að sjá eignasafnið?)