138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð athyglisvert svar hjá hæstv ráðherra. Grunnhugmyndin á bak við það að menn fengju að landa í annarri höfn en þeir færu úr — þ.e. innan þessa tímaramma, það er enginn að tala um að lengja hann — er að þetta snýst um öryggismál sjómanna. Auðvitað er það það. Margsinnis hefur verið bent á það. En telur hæstv. ráðherra þá að ekki væri skynsamlegt, að þau rök fengju að njóta sín og menn mundu þá breyta þessu í þá veru og segja: Þetta er þannig mál að það fjallar um öryggismál sjómanna og að sjálfsögðu munum við breyta því. Það er ekkert nema skynsamlegt að gera það. Aldrei hafa verið færð nein önnur rök fyrir því og alveg fáránlegt að halda því fram að þetta auki eitthvað svigrúmið til að nýta sér þessa línuívilnun, alls ekki. Þetta fjallar eingöngu um öryggismál sjómanna.

Síðan kemur hæstv. ráðherra inn á það að lengi hafi verið bent á það hjá Hafrannsóknastofnun að skipta þurfi karfanum í gullkarfa og djúpkarfa, þ.e. úthlutuninni. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra. Ég velti því fyrir mér vegna þess að af afladagbókum fiskiskipa við Íslandsströnd liggur alveg fyrir hvað þau hafa verið að veiða, ef menn vildu hafa það þannig að úthlutunin færi eftir því hvað hver hefði verið að veiða, þ.e. þeir sem hafa veitt gullkarfa fengju þá úthlutað í gullkarfa og þeir sem hafa veitt djúpkarfa fengju þá úthlutað í djúpkarfa. Þetta er algert grundvallaratriði og ekkert vandamál að bregðast við þessu með því að rétta þetta af. Það er ekkert vandamál, það vantar viljann til að gera það. Þessu frumvarpi þarf að breyta og eins og hæstv. ráðherra sagði, stóru togskipin hafa verið að veiða djúpkarfa en minni togskipin gullkarfa. Hér eru lítil togskip sem hafa í áraraðir eingöngu veitt gullkarfa en fá nú úthlutað djúpkarfa eftir þessu vitlausa frumvarpi. Það er algerlega óásættanlegt að menn (Forseti hringir.) fái úthlutað heimildum sem þeir geta svo sannarlega ekki nýtt.