138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að játa að það veldur mér sárum vonbrigðum að ég skuli hryggja mínar ágætu vinkonur, þingmenn Framsóknarflokksins, sem hér hafa talað, með þessu sárasaklausa frumvarpi sem var niðurstaða okkar í fjármálaráðuneytinu að væri bara eðlilegt og sjálfsagt að leggja hér fram tímanlega áður en hin tímabundnu ákvæði ársins 2009 sem giltu um kjararáð gengju úr gildi. Það yrði tekinn af allur vafi fyrir fram um að við ætlum að hafa þessar launalækkanir, eða þessa launaaðlögun sem ég kalla frekar, í gildi áfram á árinu 2010 þannig að engin óvissa sé uppi um það. Ég hef ekki heyrt frambærileg rök gegn því að það sé eitthvað að því að gera þetta svona. Ég get út af fyrir sig skilið það sjónarmið að það séu ekki miklar líkur á því kannski að kjararáð fari að hækka laun þessara hópa en ég held að það sé bara langbest að hafa þetta á hreinu, ganga frá þessu. Og varðandi það ef hv. þingmaður saknar skattafrumvarpanna get ég nú glatt hana með því að hún þarf þá ekki lengi að bíða, þau munu koma innan fárra daga. Þá getur þetta gerst í ágætri röð: Fyrst er hér mælt fyrir frumvarpi til laga um að lækka á okkur launin og svo koma innan fárra daga frumvörp um að hækka á okkur skattana.