138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Þetta er svona eins og mig grunaði, frú forseti, að hæstv. ráðherra hefur sem sagt engin svör um það eða neinar tölur um það hvernig gert er ráð fyrir að þróunin verði hjá þessum viðmiðunarhópum. Mig minnir nú að hæstv. fjármálaráðherra sé með starfsmannamálin hjá ríkinu á sinni könnu, ég hefði talið mun eðlilegra, ef hann þarf að flytja einhver lítil og sæt frumvörp, að hann hefði t.d. lagt fram frumvarp um hvernig standa eigi að tímabundnum ráðningum hjá ríkinu, það hefði kannski verið nær. Og hvernig standa eigi að auglýsingum á tímabundnum störfum og á hvaða forsendum auglýsa megi störf sem tímabundin. En þetta mál hérna er, eins og hann sagði, smámál og það er alveg fáránlegt að við skulum almennt vera að eyða tíma okkar í þetta. Ég hefði talið langeðlilegast ef ráðherrann gæti staðið sig í sínu starfi að hann hefði komið með skattatillögurnar strax og fjárlagafrumvarpið hérna í þinginu. Við hefðum kannski haft einhvern tíma til þess að takast á við alvörumál í staðinn fyrir það sem við heyrum núna í svörum ráðherrans, hann segir enn á ný að það séu nokkrir dagar í það að við munum fjalla um tekjuhlið ríkissjóðs. Ég ítreka: Hvernig sér ráðherrann fyrir sér að þróunin verði í launum hjá opinberum starfsmönnum og þessum viðmiðunarhópum í samfélaginu sem gerir það að verkum að hann telur að það þurfi að setja fram svona lagafrumvarp til að tryggja að það verði nú örugglega engar hækkanir, sem ég tel mjög ólíklegt. Ef svo væri ætti þingið að geta komið mjög fljótt saman og stoppað kjararáð af ef því dettur það í hug.