138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

lánssamningar í erlendri mynt.

122. mál
[12:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég verð að segja að það veldur mér vonbrigðum en kemur kannski ekki á óvart hvernig hæstv. ráðherra velur að svara þessum spurningum. Það kemur fram í 5. og 6. spurningu þar sem spurt er um frágang og uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna, hvort tekið hafi verið tillit til þess, og hvort erlendum kröfuhöfum hafi verið kynnt sú lagalega óvissa. Hæstv. ráðherra virðist að einhverju leyti vera að afsaka sig með því að það sé ekki hlutverk ráðherra að leita lögfræðiálita eða fá skýringar á því hvort verið sé að gera hlutina á þann máta sem löggjafinn ætlast til þegar hann setti lögin. Ég veit ekki betur en að það hafi komið fyrir í þó nokkuð mörgum málum að ríkisstjórnin hafi leitað til lögfræðinga og fengið lögfræðileg álit á þeim málum og lögfræðingar komið og talað með eða á móti málum sem ríkisstjórnin hefur verið að leggja til.

Ég verð að ítreka að það eru mikil vonbrigði hvernig ráðherra virðist ætla að víkja sér aftur og aftur undan því að svara þessu varðandi gengistryggðu lánin. Ég held að ég geti fullyrt að í lögskýringargögnum sem komu með lögunum nr. 38/2001, komi alveg skýrt fram hvernig löglegt er að verðtryggða eða tengja lán á Íslandi. Þar er hvergi minnst á gengistryggingu heldur er talað um verðlagsvísitöluna og verðtryggingu á þann máta. Ég held að þetta sé líka dæmi um það sem talsmaður neytenda hefur ítrekað bent á að þær fjármálaafurðir, þær vörur sem hefur má segja verið prangað inn á neytendur á Íslandi á undanförnum árum, og er nú haldið áfram m.a. með nýrri greiðslujöfnunarvísitölu ríkisstjórnarinnar, að það er ekkert skrýtið að fólk hafi hreinlega ekki gert sér grein fyrir því hvað það var að kaupa. Það taldi sig vera að kaupa — ég er hérna með bréf (Forseti hringir.) frá leigutaka til Lýsingar þar sem kemur alveg skýrt fram hvað viðkomandi taldi sig vera að kaupa og hvað honum væri ætlað að borga og hann hefur í rauninni borgað jafnvel meira en samt er búið að hirða bílinn (Forseti hringir.) af leigutakanum og verið að rukka viðkomandi um margfalda þá upphæð sem hann (Forseti hringir.) taldi sig vera að taka að láni.