138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB.

[13:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég biðst velvirðingar á að hafa misst af upphafi ræðu hv. þingmanns en ég heyrði það af henni sem fjallaði um yfirlýsingar mínar um að sumu væri betur komið í nýju frumvarpi. Við fáum tækifæri til að ræða þetta betur á morgun þar sem mér skilst að umræða verði um frumvarpið. Þá leggjum við fram álit bæði meiri og minni hluta í Icesave-málinu og eðlilegt að sú umræða verði þar. Það er erfitt í störfum þingsins í stuttum ræðum að gera grein fyrir hvað veldur.

Það sem ég vísaði til er það að þegar við byrjuðum að vinna við að setja fyrirvara komu fram mjög harðar gagnrýnisraddir um að ekkert þýddi að reyna að lappa upp á það frumvarp sem þá lá fyrir, það yrði að vísa því til baka og láta semja að nýju, einfaldlega vegna þess að fyrirvarar mundu aldrei halda, þetta væri gagnslaust plagg nema það færi inn í samningana.

Það væri fróðlegt að fletta upp á hverjir sögðu þetta, og hvenær. Hluti af þeim rökum sem ég notaði var að þegar búið er að taka af fyrirvarana væri hægt að ganga skýrt að því við hvað væri átt. Bretar og Hollendingar virðast hafa gert kröfu, að sögn þeirra sem voru í þessum samningum, um að hnýttir yrðu allir endar og reynt að ganga þannig frá málum að þeir væru lagalega réttir. Þeir gagnrýndu m.a. að Brussel-viðmiðin væru óljós, það þyrfti þá að koma þeim inn í samningana. Það var sama með endalokin, þ.e. 2024, hvort fella ætti niður greiðslur eða ekki. Menn töluðu út og suður í þinginu. Þó að það hefði átt að fara í samninga vildu þeir skýra það í samningunum — og margt af þessu var skýrt í seinni lotunni. Það er að mínu mati að sumu leyti betra vegna þess að þá vitum við að hverju við göngum. Menn töldu að ef þetta væri ekki í samningunum hefðu fyrirvararnir ekki neitt lagalegt gildi, það væri mikilvægt að þetta væri í samningunum þannig að hægt væri að sækja þetta fyrir dómstólum.

Frá upphafi lá fyrir að samningarnir heyrðu undir bresk lög, akkúrat þessir samningar, (Gripið fram í: Ekki ríkisábyrgð.) (Forseti hringir.) undir breska ríkið, það lá alltaf fyrir, ekki ríkisábyrgð.