138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Rangárþingi.

146. mál
[15:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég tek undir að það skiptir mjög miklu máli, sérstaklega til þess að halda utan um fjölskylduna og tryggja byggð í landinu, að hægt sé að bjóða börnum upp á að vera sem lengst heima hjá sér. Hluti af því er að bjóða börnum upp að a.m.k. 18 ára aldri að geta sótt nám í framhaldsskóla heiman frá sér. Eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir fór í gegnum er verið að horfa hérna á þrjá möguleika; að stofna sérstakan framhaldsskóla á viðkomandi stað, útibú frá öðrum framhaldsskólum, svona fjarnámsdeildir eins og við höfum séð þróast að undanförnu, eða þá að hækka dreifbýlisstyrkinn.

Ég vildi bara fá að koma því að í þessari stuttu athugasemd að ég teldi, a.m.k. hvað varðar framhaldsskóla í Rangárþingi, bestu leiðina þá að skoða það að stofna svona fjarnámsdeild og þá í samstarfi við þá skóla sem eru þarna á svæðinu. (Forseti hringir.) Ég veit að það er sérstaklega mikill áhugi frá Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum og síðan frá skólanum á Selfossi.