138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

eyðing refs.

151. mál
[18:38]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn sem snýr að stuðningi ríkissjóðs til sveitarfélaga vegna eyðingu refs, en eins og kunnugt er er eyðing refa og minka verkefni sveitarfélaga, samanber lög um vernd og friðum og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Ríkissjóður hefur styrkt sveitarfélögin til þessara verkefna um langt skeið, enda gera lögin ráð fyrir því að ríkissjóður geti styrkt þessi verkefni sveitarfélaga um allt að 50% af kostnaði þeirra árlega í samræmi við fjárlög.

Varðandi fyrirspurn þingmannsins er því til að svara að eins og nú er ástatt með ríkisfjármálin tel ég afar erfitt að styðja sveitarfélögin til eyðingar refa á næsta ári. Nauðsynlegt hefur reynst að skera verulega niður í útgjöldum ríkisins svo það bitnar auðvitað á umhverfismálum eins og öllum öðrum málaflokkum. Út frá náttúrufarslegum forsendum er ekki talin ástæða til þess að auka fé til refaveiða á vegum ríkisins í samræmi við sveitarfélögin miðað við stöðuna í dag.

Á hinn bóginn taldi ég mikilvægt að halda framlagi til sveitarfélaga vegna minkaveiða óbreyttum milli ára, auk þess sem lokið verður við stórt tilraunaverkefni um útrýmingu minks á Snæfellsnesi og í Eyjafirði á næsta ári. Þess er vænst að niðurstöður þessa verkefnis gefi okkur vísbendingar um á hvern hátt verði staðið að minkaveiðum hér á landi og hvort fýsilegt kunni að vera að ráðast til atlögu gegn villiminknum í íslenskri náttúru.

Vegna orða þingmannsins um þær upphæðir sem hér um ræðir og hafa verið nokkuð til umræðu í fjölmiðlum hefur framlag ríkisins vegna refaveiða að meðaltali verið um og yfir 20% af kostnaði sveitarfélaganna. Það er af ýmsum ástæðum. Það er vegna þess að sveitarfélögin hafa gert misvel við veiðimenn og sum sveitarfélög hafa meira að segja líka greitt tímavinnu og fyrir akstur og fleira.

Þingmaðurinn velti líka upp spurningu varðandi mófuglinn. Menn tala ekki alveg einum rómi í þessum efnum. Refurinn er jú eina landspendýrið sem talið er vera hluti af upprunalegri náttúru Íslands. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá Náttúrufræðistofnun Íslands, og það er mat sérfræðinga, eru þau neikvæðu áhrif á fuglalíf sem um hefur verið fjallað stórlega ýkt. Refurinn er sem sé landnámsdýr og stofninn var af svipaðri stærð við upphaf síðustu aldar og hann er í dag. Á þeim tíma gætti ekki þeirra neikvæðu áhrifa sem haldið er fram að refurinn hafi á fuglalíf.

Það er ljóst að refurinn gengur í æðarvarp og getur haft áhrif á það, eins og hefur komið fram. Fyrir 100 árum var refum fækkað mikið í Mýrasýslu með eitri því að dúntekja minnkaði vegna þess að fuglinn dreifði sér og fannst ekki. En eftir að refur kom aftur þangað jókst fjöldi fugla innan varpsins þrisvar sinnum meira en þá fækkaði fundnum hreiðrum utan varpsins. Það eru því ýmsir þættir sem koma þarna inn. Þó að það sé slæmt að fá ref í æðarvarp getur verið kostur að hafa hann utan varpsins af líffræðilegum ástæðum.

Mófuglar eru í sjálfu sér vel aðlagaðir sambýli við ref. Þeir verpa dreift. Það er tiltölulega lítil lykt af hreiðrunum. Fullorðnir fuglar afvegaleiða afræningja. Viðkoman er mikil og fuglarnir eru tiltölulega langlífir. Vaðfuglar verpa flestir fjórum eggjum en að meðaltali kemst ekki nema einn ungi á legg á ári. Á langri ævi þarf hvert par aðeins að koma upp tveimur ungum til að viðhalda varpstofni. Þetta lífsmunstur mófugla er aðlögun að miklu afráni og náttúrulegum dauðsföllum þannig að það eru ýmis sjónarmið þarna uppi.

Ég hef samúð með þeim sjónarmiðum sem upp hafa komið að því er varðar þetta samstarf við sveitarfélögin. Þarna er auðvitað um að ræða ákveðið tap á tekjum ef svo má segja, en einhvers staðar verður undan að láta þegar snúið er að láta enda ná saman í náttúruverndar- og umhverfismálum, rétt eins og í öllum málaflokkum. Ég taldi afar mikilvægt að halda siglingu að því er varðar minkinn en að þarna væri möguleiki varðandi refinn, sérstaklega í ljósi þess að framlag ríkisins hefur einungis verið um 20% af kostnaði sveitarfélaganna. Ég taldi því skaðann ekki mikinn, en álít jafnframt að það sé full ástæða til þess að skoða málið í samvinnu við þá aðila sem gerst til þekkja, hvort sem það eru fulltrúar minnar ágætu stofnunar, umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar eða Náttúrufræðistofnunar eða þeirra aðila sem þarna koma að, þeir sem best vit hafa á fuglalífi eða sveitarfélögin. Ég tel rétt að setja í gang starfshóp í kjölfar þessarar umræðu sem mun rýna þetta mál til lengri framtíðar, þá með það að markmiði að skoða stöðu stofnsins og raunverulega stýringu á þeim inngripum sem þarna er um að ræða og hvort það sé kostnaðarins virði að halda því áfram sem verið hefur hingað til.