138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og tek heils hugar undir með honum að það er mjög mikilvægt að við fáum styrkingu á krónuna. Mig langar hins vegar líka að spyrja hann út í annað. Nú borgum við 5,5% vexti af þessu láni sem er náttúrlega há vaxtaprósenta ofan á pundið og af því að í Bretlandi hefur undanfarin ár eða áratugi bara verið 1% verðbólga, þá eru þetta náttúrlega gríðarlega háir vextir miðað við það. Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvort það væri ekki skynsamlegt og jafnvel krafa af hálfu íslenska ríkisins vegna þess að við erum að veita ríkisábyrgð að við tækjum hreinlega ríkisábyrgðargjald og mundum þá borga lægri vexti. Þeir vextir sem við erum að greiða þarna eru vextir sem eru lánaðir til einkafyrirtækja til þess að það skaði ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja í Bretlandi, þannig að við erum að ganga undir það sama og þeir gera.

Síðan langar mig að það komi fram að nú eru stýrivextir í Bretlandi 0,5% og Libor-vextir eru 1,6, það er reyndar miðað við 12 mánaða vexti sem eru þá 2,1%. Við erum því klárlega að greiða þarna langt umfram og í raun og veru eru Bretar og Hollendingar að hagnast um stórar upphæðir bara á vaxtamun á þessu láni. Og þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist það ekki ósanngjarnt í þeirri stöðu sem við erum núna, því að eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni hefðum við auðvitað getað sagt við Breta og Hollendinga: Komiði bara hingað í nágrennið og sækið á tryggingarsjóðinn. Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvort honum finnist það ekki mjög ósanngjarnt að þetta sé með þeim hætti að við greiðum tugi milljarða í vaxtamun sem Bretar og Hollendingar klárlega hagnast um með því að lána okkur þessa peninga.