138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

verkaskipting milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis vegna hjúkrunarheimila.

[14:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur kærlega fyrir þessa umræðu. Hún virðist svo sannarlega vera þörf því að enn á ný kemur fram grundvallarágreiningur á milli tveggja ráðherra í ríkisstjórn. Það virðist vera að þessi breyting þar sem verið er að færa fjárhagsábyrgð á milli tveggja ráðuneyta, frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið, sé alls ekki í einni eða neinni sátt. Það komu mjög misvísandi skilaboð frá þessum tveimur ráðherrum þegar þau stigu í pontu.

Við erum heldur ekki að tala um neina smápeninga hérna. Verið er að tala um 20 milljarða sem fara á milli ráðuneyta. Það eru umtalsverðir fjármunir. Þrátt fyrir orð hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra um að þetta hafi verið unnið í mikilli sátt og samvinnu og sé jákvætt skref er mjög einkennilegt að ekki skuli hafa farið fram nein pólitísk umræða um þetta mál og ég veit ekki um hvað er sátt. Eru menn kannski farnir að túlka það þannig í þessari ríkisstjórn að ef enginn talar um hlutina og enginn veit neitt um þá, sé allt þar með unnið í mikilli pólitískri sátt?

Rökin sem komið hafa fram um að hjúkrunarheimili séu heimili fólks og að það sé hluti af félagslegri þjónustu, tel ég að geti alls ekki staðist. Heimili fólks eru heima hjá því en ekki á heilbrigðisstofnun. Við höfum margoft talað í þinginu og í samfélaginu um mikilvægt þess að styrkja heimahjúkrun. En það getur ekki verið að við ætlum að stefna að því að breyta stofnunum í heimili, heldur ættum við að reyna að veita eins mikla þjónustu og við mögulega getum heima hjá fólki.

Hjúkrunarrými eru í eðli sínu hjúkrunarstofnanir. Það eru heilbrigðisstofnanir og mér skilst að um helmingur af því starfsfólki sem þar starfar flokkist undir heilbrigðisstéttir. Þess vegna verð ég að segja að allt þetta mál virðist einkennast af því að það er mjög ómarkvisst, hlutirnir virðast vera flæktir óþarflega mikið og þetta er mjög fálmandi stefnumörkun (Forseti hringir.) í málefnum eldra fólks, sem er mjög mikilvægur málaflokkur.