138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef við lítum þannig á að við borgum lánið til Bretlands með útflutningi á fiski, ákveðnum tonnum af fiski, og það er verðbólga í Bretlandi hækkar væntanlega verðið á þeim fiski. Í rauninni skiptir því verðbólga á Íslandi ekki stóru máli ef við hugsum um magnið sem við þurfum að afhenda.

Hins vegar kemur verðbólgan mjög sterkt inn í hitt dæmið sem er einmitt krónutölufesting í Landsbankanum og hvað hann getur staðið við mikið af sínum skuldbindingum. Þar fer að verða mikil áhætta út af genginu eða verðbólgu á Íslandi. Gagnvart lánunum í Bretlandi og Hollandi er það aðallega verðbólga í þeim myntum sem skiptir máli. Ef hún verður mikil og þægileg fyrir okkur Íslendinga er það gott.