138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var mikilvægt að heyra þetta því að við erum alveg sammála um að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hafa leitt til þess að við köllum yfir okkur miklar klyfjar fyrir framtíðarkynslóðir.

Ég vil koma að öðru og það tengist vöruskiptajöfnuðinum og því sem hv. þingmaður kom inn á áðan. Ef vöruskiptajöfnuður verður eins og hann lýsti er mjög líklegt að raungengið verði mjög lágt. Ég veit að hv. þingmaður er hagfræðimenntaður. Getur hann lýst því hvaða áhrif það hefur til lengri tíma fyrir íslensk lífskjör, hvaða áhrif það hefur raunverulega á kaupmáttinn? Hann kom inn á að hann yrði lágur, gæti hann tekið dæmi um hvaða raunverulegu áhrif þessi samningur mun hafa á lífskjör þjóðarinnar til lengri tíma litið, hinar venjulegu fjölskyldur, Jóna og Gunnur þessa lands?