138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Reykjavíkurflugvöllur -- verklagsreglur bankanna -- Suðvesturlína o.fl.

[13:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs vegna ummæla hæstv. forsætisráðherra í þinginu í gær þar sem kom fram að með því að þingmenn ræddu hið mikilvæga Icesave-mál væri verið að koma í veg fyrir að önnur mikilvæg mál væru rædd. Ég vil að það komi skýrt fram af hálfu Sjálfstæðisflokksins að við munum að sjálfsögðu hliðra til fyrir málum sem ríkisstjórnin telur að þurfi nauðsynlega að koma inn í þingið og hafa brýna nauðsyn, bæði fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin.

Það er áhugavert að velta fyrir sér orðum hæstv. forsætisráðherra sem sagði að hennar tími í málinu kæmi, hann væri bara ekki kominn enn. Ég ætla að leyfa mér að hafa aðra skoðun. Ég tel að tími hæstv. forsætisráðherra sé því miður bæði kominn og farinn. Það var hlutverk forsætisráðherra að sækja á m.a. forsvarsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og krefja þá svara um hverju það sætti að hér væri talið að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti það að skilyrði að við Íslendingar gengjum til samninga við Breta og Hollendinga. Því var haldið ítrekað fram að Icesave-málið stæði og félli með því.

Síðan kemur það í ljós þegar leikstjóri nokkur úti í bæ sendir Dominique Strauss-Kahn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum bréf að það er skoðun Dominiques Strauss-Kahns að það sé ekki þannig að þetta mál hangi saman. Hæstv. forsætisráðherra var ítrekað spurð að því í þinginu hvernig stæði á því að íslensk stjórnvöld færu ekki fram og krefðust þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði hreint fyrir sínum dyrum en þá var því alltaf svarað til að það hefði ekkert upp á sig, menn vissu hvernig staðan væri. Sama gilti um Norðurlöndin. Hæstv. forsætisráðherra hafði tíma til að sækja á Norðurlöndin og spyrja hvernig stæði á því í ljósi áratuga góðra samskipta þessara landa og úr því að þau væru svo vinsamleg að vilja lána okkur, að þau gerðu kröfu um að við Íslendingar beygðum okkur undir Hollendinga og Breta. Hvernig stendur á því?

Frú forseti. Tími hæstv. forsætisráðherra í þessu máli er bæði kominn og farinn.