138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

þýðingarvinna.

177. mál
[14:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur nú kannski ekki úr mjög háum söðli að detta varðandi störf án staðsetningar. Það má minna hann á að hér var flokkur sem lét birta sérstaka skýrslu um að það ætti að flytja, ekki 1.000 heldur 1.800 störf út á landsbyggðina innan úr innviðum ríkisins og niðurstaðan varð þrjú eins og hv. þingmaður gat um. Það er að vísu rétt og honum til hróss og þeim ráðherra sem hann nefndi áðan að þau voru öll í hans nánustu heimabyggð, næsta bæ við.

Sömuleiðis vil ég lýsa sérstakri ánægju minni með það að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leyfa sér þann munað að sjá þó loksins eitthvað jákvætt við Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Ég get bætt því við að ef við göngum inn í Evrópusambandið þá mun, fyrir utan þýðendur og lögfræðinga, sennilega reynast nauðsynlegt að stórbæta og auka menntun hér varðandi túlka því að auðvitað þarf að túlka hið ástkæra ylhýra yfir á annarra tungur ef að þessu kemur, sem ég vona að verði í fyllingu tímans.

Hv. þm. Birgir Ármannsson spyr mig síðan hvort eitthvað sé að frétta af þýðingarstyrkjum. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég reifaði það einu sinni í ræðustól að það væri möguleiki á því að fá slíka styrki. Ég gat þess hins vegar að ekkert annað ríki hefði fengið þá. Við erum að leita hófanna um það. Niðurstaða um það mun ekki koma fyrr en bak áramótum.

Ég er þeirrar skoðunar að störf af þessu tagi séu mjög heppileg til þess að vinna í fjarvinnslu og það er svolítið um það hjá ráðuneytinu. Ég stefni að því að auka þann hlut. Hins vegar minni ég hv. þingmann á að ég hef upplýst það hér í hvaða hremmingum ég hef lent sem utanríkisráðherra við að auglýsa sérstaklega tilteknar stöður úti á landsbyggðinni. Það er ekki auðhlaupið, en eins og hv. þingmenn muna að þegar þau tíu störf sem hér voru nefnd áðan voru auglýst voru þau auglýst á þremur stöðum, þar með var jafnræðis gætt. En það virðist nokkuð umhendis án lagabreytinga að ráðast í að auglýsa störf beinlínis til fjarvinnslu á landsbyggðinni, eins og ég hef sannferðuglega greint þinginu frá.