138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:03]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra, þakka þér fyrir þessa spurningu.

Fyrst varðandi hvort Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið í lappirnar með að fara út í þessar samningaviðræður. Ég held að hvorugur flokkurinn hafi átt sína bestu stund í hruninu. Ég er ekki að hafna ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á einu né neinu. Það sem ég var að tala um áðan var að nálgast hlutina með sæmd sem stoltur Íslendingur, sama hvort maður er samfylkingarmaður, sjálfstæðismaður, í Hreyfingunni, Framsóknarflokknum eða hvaðan sem maður kemur, það skiptir ekki máli. Það sem við þurfum að gera er að ganga frá málinu þannig að við höfum sæmd af því. Þá skiptir fortíðin ekki máli heldur bara framtíðin.

Hvort byrðin verði ekki þyngri, nei, hún verður mun léttari. Höfuðstóllinn sem verður eftir, eða það sem breytist í höfuðstól árið 2016 þegar farið verður að borga af láninu, verður tæpum 100 milljörðum lægri. Greiðslubyrðin verður mun minni þannig að þetta verður mun léttara fyrir framtíðarkynslóðir. Það stafar af því að meðan stabbinn er svona hár eins og hann er í dag, núna eru þetta um 700 milljarðar — ef það er á mun lægri vöxtum en 5,55% lækkar stabbinn, vextirnir hækka á móti og þá vex vaxtabyrðin mun hægar en vextirnir sjálfir.