138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir hans ræðu. Mig langar til þess að spyrja þingmanninn að tvennu. Mig langar að biðja hann að rifja upp umræðuna frá því í desember. Þar talaði hv. þingmaður í sínum ræðum um hversu óljós skuldbindingin væri sem íslenska ríkið væri að taka á sig. Ég hefði mikinn áhuga á að heyra hans skoðun og afstöðu til þess hvort þessi skuldbinding hafi að einhverju leyti skýrst síðan í desember og hvort það hafi verið gott eða slæmt í sjálfu sér að það skuli hafa tafist fram á veturinn 2009 að leggja fram þennan samning.

Í öðru lagi hefði ég mikinn áhuga á að heyra frá hv. þm. Pétri Blöndal, sem var í þeim hópi sem vann efnahagslegu fyrirvarana, hver kjarninn sé í þeim efnahagslegu fyrirvörum sem voru samþykktir í lögunum núna í sumar. Hver er munurinn á þeim fyrirvörum sem núna er verið að setja varðandi þessa skuldbindingu? Mér hefur þótt mjög skrýtið að hlusta á, þar sem ég tók þátt í þessari vinnu með þingmanninum, hæstv. fjármálaráðherra, ríkisstjórnina og jafnvel stjórnarliða tala á þann máta að þessir fyrirvarar séu sambærilegir, að þessi fyrirvari sem er kominn núna inn í samningana sé jafngóður og sá sem var settur í sumar. Ef þeir eru sambærilegir, af hverju þarf þá að breyta þeim?

Ég man vel eftir þessu eina áhættumati sem ég hef séð í þessu máli hjá hv. þingmanni — hann fór mjög vandlega í gegnum hvern einasta áhættulið sem hann hafði séð og greint. Veit þingmaðurinn til þess að annað áhættumat hafi farið fram á vegum ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) eða einhverra stofnana?