138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Þessu er auðsvarað, frú forseti. Það er algjörlega óforsvaranlegt að samþykkja þá óvissu sem ríkisstjórn Íslands er að bjóða upp á, þá svakalegu óvissuferð og er nú óvissan mikil fyrir í samfélaginu, en að bjóða upp á þetta er algjörlega óforsvaranlegt. Þetta er opinn tékki, alveg hárrétt dregið fram hjá hv. þingmanni, opinn tékki á framtíðina og það er m.a. þess vegna sem við spyrnum við fótum. Við erum að segja: Vaknið, reynið að standa í fæturna og við skulum hjálpa ykkur. Við skulum vera þær hækjur sem ríkisstjórnin þarf á að halda til að standa í lappirnar í þessu máli. Hún hefur ekki gert það, ítrekað hefur hún ekki gert það.

Það er sama hvaða ábendingar eru dregnar fram, hvort sem það er af hálfu Sigurðar Líndals eða annarra, þessi óvissa er óásættanleg fyrir íslenska þjóð og íslenska framtíð. Þess vegna verður að reyna að takmarka þetta með einhverjum hætti eins og við gerðum í sumar. Við viljum reyna að ná pólitískri lausn, við höfum margoft sagt það og við sýndum það (Forseti hringir.) í sumar, en ef menn segja nei við því er bara einfalt að fara með málið fyrir dómstóla. Menn eiga ekki að vera hræddir við það.