138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði einmitt að fara að árétta spurninguna um stöðu hv. þingmanna Vinstri grænna. En mig langar líka til að spyrja hv. þingmann hvað hann telji að ráði afstöðu hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Nú hafa þeir þingmenn ekki tjáð sig mikið í ræðustól um þetta mál en það hlýtur samt sem áður að hvíla ansi þungt á þeim, þeir hljóta að gera sér grein fyrir því að þetta er mjög alvarlegt mál og ég hef ekki heyrt einn einasta mann sem er ánægður með þessa stöðu.

Þá er það spurningin sem ég vildi spyrja hv. þingmann: Hvað telur hann, af því að ekki get ég spurt þingmenn Samfylkingarinnar að þessu, þeir gefa ekki færi á sér, hvað telur hann að ráði afstöðu þeirra? Hvort er það meira aðgöngumiði fyrir Evrópusambandið, sem þá dreymir um að fara inn í og hafa fulla trú á að leysi öll vandamál Íslands (Gripið fram í.) á öllum sviðum, í landbúnaði sem annars staðar, vegna frammíkalls hér, eða að þeir líti á þetta sem einhvers konar smámál sem muni reddast eftir þeirri kenningu sem útrásin gekk út á, að þetta muni allt saman reddast, gengið muni fara upp og hagvöxtur verði góður o.s.frv. og það komi ekkert upp á, eins og mjög margir Íslendingar eða einhverjir Íslendingar, því miður, hafa unnið undanfarna áratugi? Ég vil spyrja hv. þingmann um þetta og árétta svo spurningu mína um þingmenn Vinstri grænna, hvað eiginlega ráði afstöðu þeirra.