138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin en ég þarf að fá örlítið betri útskýringu á hugtakanotkun hæstv. forseta. Hvað á hæstv. forseti við þegar hann segir: „enn um sinn“? Það er ekki alveg skýrt hvað hæstv. forseti á við og hæstv. forseti var spurður hvenær við gætum áætlað matarhlé. Það vill svo til að ríkisstjórnin og sá hæstv. forseti sem nú er hafa boðað mjög fjölskylduvænt þing, að nú skyldi breyta vinnubrögðum. Við sáum það verklag vel í sumar þar sem sumarfrí fjölskyldunnar fór forgörðum vegna sumarþings og þykir það kannski ekki til eftirbreytni. Helgarfríin eru orðin afar dýrmæt og ég veit að það er beðið eftir laugardagskvöldi með mömmu og pabba á mínu heimili. Því vildi ég gjarnan fá að vita (Forseti hringir.) hvað hæstv. forseti á við með „enn um sinn“, hvort það sé (Forseti hringir.) enn um sinn til klukkan átta, enn um sinn til miðnættis (Forseti hringir.) eða enn um sinn út í nóttina.