138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:59]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir aldeilis ágæta spurningu. Það er alveg rétt að mikill vafi hefur leikið á um hvort búið sé að taka nægilega vel til í bankakerfi heimsins. Sérstaklega á það við á meginlandi Evrópu t.d. í Þýskalandi, Austurríki, Sviss og jafnvel á Norðurlöndunum, t.d. í Svíþjóð og fleiri löndum. Það sem menn hafa áhyggjur af núna er einmitt að þessir atburðir, þegar áhættufælni eykst gríðarlega hjá fjárfestum, muni leiða til þess að bankar þvingist út í að afskrifa mun meira en áður. Þetta var einmitt röksemdafærslan fyrir því að við værum ekki búin að sjá fyrir endann á þessari kreppu.

Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér en ég er ansi hræddur um að bankakerfið í Evrópu eigi eftir að fá mun meiri skell en við höfum séð hingað til, vegna atburða eins og eru að gerast núna í Dúbaí, út af Grikklandi og það á eftir að gera upp hluti í Austur-Evrópu. Síðan eru hlutirnir alls ekki komnir á hreint í t.d. Austurríki og Stóra-Bretlandi. Því miður hef ég áhyggjur af því að þetta geti verið byrjunin á hinum fullkomna stormi.