138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

breytingar á fæðingarorlofi.

[10:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir tækifæri til þess að ræða hér hugmyndir um breytingar á fæðingarorlofi. Það er athyglisvert að Íslendingar virðast bregðast við kreppunni með öðrum hætti en þjóðir almennt hafa gert. Hér fjölgar barnsfæðingum en annars staðar, þar sem kreppa hefur gengið yfir, fækkar þeim. Það er svo sem engin einhlít skýring á því, menn vita ekki af hverju þetta er en ýmsir, og þar á meðal sú sem hér stendur, telja að þetta kunni einmitt að liggja í fæðingarorlofinu og því öryggi sem foreldrar hafa innan þess kerfis hér á landi, bæði feður og mæður. Þetta er gott kerfi og hefur verið stefnt að því að bæta það og lengja fæðingarorlofið.

Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir mjög erfiðum aðstæðum í efnahagslífinu og verið er að dreifa byrðum m.a. til þess að hlífa öryrkjum og öldruðum, (Gripið fram í.) þeim sem lægstar tekjur hafa. Uppi eru tillögur hér, ekki um það að stytta (Gripið fram í.) fæðingarorlofið, (Gripið fram í.) heldur … (Gripið fram í.) Má ég klára og nota þessar tvær mínútur, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir? Ég ætla að fá að nota þann tíma sem ég hef hér.

Það er rangt sem hér kom fram að uppi væru tillögur um að stytta fæðingarorlofið, það eru uppi tillögur um að bjóða upp á val um hvort fólk tekur níunda mánuðinn (Gripið fram í.) eftir þrjú ár (Gripið fram í.) — já, eftir þrjú ár, eða tekur níu mánuðina núna á skertum bótum. Það er það sem nú er lagt upp með og ég verð að segja, þó að ég verði kannski að nýta tíma minn betur í seinna svarinu, að þetta er val sem foreldrar standa frammi fyrir og ég tel það betra en að skikka fólk til annars hvors. (Gripið fram í.)